Dagur íslenskrar tungu 2008

Ræða haldin á hátíðardagskrá í Árnagarði á vegum Mímis, félags íslenskunema við Háskóla Íslands, í tilefni af Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2008.

Góðan dag, kæru gestir, og gleðilega hátíð

Á degi íslenskrar tungu í fyrra stóð ég við sama púlt og núna og hélt mikla lofræðu um útrás íslenskunema. Ég smjattaði dálítið á hinu gríðarvinsæla tískuorði ‘útrás’ og var bæði stolt og ánægð þegar ég líkti íslenskunemum við íslenska víkinga og íslensk fjármálafyrirtæki. Ég gekk meira að segja svo langt að bregða mér í líki viðskiptafræðings og greindi útrásina með viðskiptafræðilegri rannsóknaraðferð í þremur liðum. Nú ári síðar hefur ýmislegt breyst. Orðið ‘útrás’ er svo sannarlega ekki lengur tískuorð heldur tabú-orð og ég var beðin að koma hingað upp í dag til að axla ábyrgð á orðum mínum. Já, ég skammast mín og í veikri von um að öðlast sálarfrið samþykkti ég að standa frammi fyrir ykkur, játa mistök mín og lofa bót og betrun, axla mína ábyrgð. Ég hef ráðfært mig við samnemendur og tel ekki nauðsynlegt að segja af mér eins sakir standa en mun að sjálfsögðu íhuga að gera það ef þörf krefur.

Hefjast þá játningarnar. Í fyrsta lagi var allt þetta útrásarmont í mér bara bull – íslenskunemar eru ekki og hafa aldrei verið í útrás. Íslenskunemar drepa hvorki fólk né krefjast landyfirráða og eru því ekki víkingar. Íslenskunemar hafa heldur ekki fjárfest erlendis í neinu nema fötum í H&M og bera því afar takmarkaða ábyrgð á gjaldþroti þjóðarbúsins. Aftur á móti er ekki hægt að neita því að íslenskunemar hafa sótt þekkingu út fyrir landssteinana og um leið gefið öðrum innsýn í eigin verkefni en yfir það eru til miklu betri orð en útrás. Við skulum bara kalla þessi ferðalög könnunarleiðangra.

Könnunarleiðangrar íslenskunema á árinu 2007 voru margir og árangursmiklir og ekki síðri á þessu ári. Tvö síðustu ár hafa tveir meginhópar íslenskunemalandkönnuða ferðast hist og her en til einföldunar skulum við kalla hópana Lið M og Lið B. (Það er rétt að taka fram strax í upphafi að þetta er ekki keppni, það er enginn sendur heim eins og í Survivor heldur eru allir góðir vinir.)

Kynnumst nú liðunum örlítið. Lið M stendur fyrir málfræðinga, morfem, miðmynd og magnafslátt. Í því eru Anton Karl Ingason, Hlíf Árnadóttir, Einar Freyr Sigurðsson, Heimir Freyr Viðarsson og Sigrún Steingrímsdóttir auk fyrirliðanna Jóhannesar Gísla Jónssonar og Þórhalls Eyþórssonar. Lið M leggur megináherslu á að ferðast víða og ferðast oft til þess að sem flestir fái notið hljóðkerfisfegurðar og tungutæknileika íslenskrar tungu. Liðið ætti því með réttu að fá magnafslátt hjá flugfélögunum. Í fyrra fóru liðsmenn til London en í júní á þessu ári lögðu þau land undir fót og gerðust klappstýrur Þórhalls sem hélt fyrirlestur í Edinborg í verksjoppu um setningafræði germanskra mála. Fyrir utan fróðlega fyrirlestra og frísklega fræðimenn í glasi vakti athygli hópsins gríðarlegur fjöldi gæsa í borginni. Ekki þó heiðagæsa heldur kvengæsa héðan og þaðan úr heiminum sem héldu því fram að Edinborg væri besti staðurinn til að sletta úr klaufunum fyrir hjónabandið. Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá eru sum öldurhús í Edinborg með skilti út í glugga þar sem stendur: Engin gæsapartí hér!, slíkur er atgangurinn. Ekki fer sögum af því hvort þessum gæsum tókst að laða til sín íslenska málfræðinga.

Í ágúst skipti lið M sér upp og fóru Hlíf, Heimir og Sigrún til Sønderborg í Danaveldi á stórfund regnhlífarverkefnisins ScanDiaSyn eða upp á íslensku mállýskutilbrigði í norrænni setningagerð. Þar héldu Heimir og Hlíf fyrirlestra auk þess sem Höskuldur Þráinsson lét ljós sitt skína. Í Leifsstöð á leiðinni út hittu þau Anton sem flaug til Gautaborgar á GoTal, alþjóðlega ráðstefnu um tungutækni, þar sem hann kynnti eiginn tungutæknihugbúnað. Anton var aðalhöfundur erindisins en vann það í samstarfi við kennara. Gaman er að segja frá því að Anton náði að heilla tungutækna frá 30 löndum upp úr skónum og ekki nóg með það heldur verður næsta alþjóðlega ráðstefna um tungutækni haldin á Íslandi eftir tvö ár og fær heitið IceTal 2010. Á leiðinni heim sat Anton í sömu flugvél og Höskuldur og má þar með segja að flutningar málfræðinga til og frá Íslandi hafi náð hámarki þetta árið.

Víkjum þá að hinum landkönnuðunum í liði B. Lið B stendur fyrir bókmenntafræði, bjór, Bakhtín og Bergljótu Kristjánsdóttur, en hún er einmitt fyrirliði þessa hóps. Aðrir liðsmenn sem fylgja forystuánni eftir hvert fótmál eru Anna Lea Friðriksdóttir, Þorsteinn Árnason Surmeli, Svavar Steinarr Guðmundsson, Sigurrós Eiðsdóttir, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, Atli Freyr Steinþórsson, Þórunn Kristjánsdóttir, Álfdís Þorleifsdóttir og undirrituð.

Lið B gerði góða ferð til Leeds í fyrra en var ekki eins virkt í ferðalögunum þetta árið og Lið M. Þess í stað ákváðu bókmenntabullurnar einfaldlega að finna góðan stað til að setjast að á, þar þurfti að vera sól, góður bjór og jafnvel H&M búð. Kaupmannahöfn varð fyrir valinu en þar dvaldi hópurinn í allan júlímánuð í góðu yfirlæti og vann að rannsóknum á Árnastofnun. Með í för voru nokkrir vel valdir makar og besti stuðningsmaður sem hægt er að hugsa sér, hann Kári Steinarr Svavarsson sem nú er 9 mánaða gamall upprennandi doktor í íslenskum fræðum. Íslenskunemarnir eiga ljúfar minningar frá hinni dönsku Árnastofnun sem lítur út eins og nýuppfærður Árnagarður og þar var hringt í te klukkan þrjú á hverjum degi. Ekki skemmdi fyrir hrópandi fagurfræðileg andstæða hinum megin við götuna þar sem stóð skrifað á gamlan steypuvegg: Foucault er bösse, eða Foucault er hommi. Síðast en ekki síst var Lið B afar þakklátt fyrir sólbaðsreitinn á Islands brygge rétt hjá Háskólanum og vill gjarnan að HÍ komi sér upp slíkri aðstöðu. Í lok mánaðarins var haldið málþing á Árnastofnun á vegum Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla í samvinnu við Árósaháskóla. Þar kynntu íslenskunemarnir þær rannsóknir sem þeir höfðu unnið að þarna úti auk þess sem fjórir nemendur frá dönsku háskólunum héldu fyrirlestra. Þetta málþing mæltist mjög vel fyrir og ákveðið hefur verið að framhald verði á samstarfi háskólanna þriggja og næsta málþing verður haldið í Árósum í mars 2009.

Ég vona að ég hafi nú náð að bæta fyrir þessa ræðuómynd sem ég hélt hér í fyrra. Þið sjáið að landkönnuðir innan íslenskunnar hafa ferðast víða og hlýtt á fyrirlestra í a.m.k. sex borgum á síðustu tveimur árum. Ekki nóg með að þeir hafi setið þessar ráðstefnur heldur hafa íslenskunemarnir haldið sjálfir fyrirlestra, komið á fót samstarfi milli norrænna háskóla og meira að segja lokkað heila ráðstefnu til Íslands. Það er ekki slæmur árangur.

Ekkert af þessu hefði þó orðið ef fyrirliðarnir og stuðningsmennirnir væru ekki til staðar, þá á ég við kennarana okkar hér í Árnagarði. Ég á ekki bara við þá sem komu með okkur og hjálpuðu okkur að skipuleggja þessar ferðir heldur alla kennara sem hvetja nemendur áfram á hverju ári. Ég vona svo sannarlega að sá góði andi sem ríkir nú innan íslenskunnar verði ræktaður áfram og nýir nemendur bætist í hópinn. Ég trúi að svo muni verða. Nú þegar er í undirbúningi ferð á fyrrnefnda ráðstefnu í Árósum og einnig ætlar Anton að fræða fólk um íslenska hljóðkerfisfræði á ársfundi þýska málfræðifélagsins í Osnabrück í mars nk. Mér finnst einnig að það gæti verið gaman að sameina M og B og fara í allsherjar íslenska landkönnun þar sem málfræði og bókmenntir, morfem og bókfesta, miðmynd og Bakhtín eru saman í liði. Gæti það ekki verið stefnan fyrir árið 2009?

Takk fyrir.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s