Dagur íslenskrar tungu 2007

Ræða haldin á hátíðardagskrá í Árnagarði á vegum Mímis, félags íslenskunema við Háskóla Íslands, í tilefni af Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2007.

Leeds, London og Hali í Suðursveit – Útrás og víðáttubrjálæði íslenskunnar

Kæru gestir – gleðilega hátíð.

Á degi íslenskrar tungu er viðeigandi að tala um íslensk orð. Íslenskunemar læra margt um orð á sinni skólagöngu – við veltum fyrir okkur merkingu þeirra og hljómi, uppruna og sögu, tilurð og notkun. Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því en ákveðið íslenskt orð hefur verið notað býsna mikið undanfarið: útrás. Ekki í merkingunni ‘farvegur’ eða ‘ós’ heldur er það notað yfir ‘sókn til þátttöku í atvinnulífi og viðskiptum utan landsteinanna’. Íslenskir bankar eru í útrás, íslenskir fjárfestar og fyrirtæki líka; allir eru íslenskir víkingar í íslenskri útrás.

Af hverju er ég að velta þessu orði fyrir mér? Jú, af því að um daginn bentu skólasystkini mín mér á að íslenskunemar eru líka í útrás, en þau höfðu þá nýlokið við að skrifa grein í Skímu, tímarit móðurmálskennara, um sína útrás til London. Og það er alveg rétt – útrás íslenskunema er hafin.

Ég stend því hér í dag til að kynna fyrir ykkur og greina þessa sókn út fyrir landsteinana. Kennarar í íslenskuskor leggja sig fram við að kenna okkur nemendum fræðileg og vönduð vinnubrögð og til að valda þeim ekki vonbrigðum fór ég á stúfana í leit að fræðiefni til að nota við greiningu mína. Það fann ég á heimasíðu viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands í umfjöllun um rannsóknarverkefnið INTICE, sem fjallar um útrás íslenskra fyrirtækja. Rannsóknarverkefnið INTICE er greining í þremur liðum og ætla ég að notast við sömu aðferð.

Á heimasíðunni stendur að í fyrsta lagi skuli útrásinni lýst með áherslu á starfsemi og þróun útrásarfyrirtækjanna.

Útrás íslenskunema er í rauninni löngu hafin. Fyrir rúmum tíu árum síðan fór hópur af nemendum á ráðstefnu í Leeds á Englandi og útskriftarnemar hafa farið a.m.k. tvisvar til Færeyja í nokkurra daga fróðleiks- og skemmtiferðir. Nemendafélagið Mímir fer á hverju ári í svokallaða skálaferð þar sem farið er út úr borginni og gist yfir nótt. Síðasta vor, nánar tiltekið síðustu helgina í mars, lagði myndarlegur hópur nemenda land undir dekk og keyrði austur að Hala í Suðursveit. Þar hittu stúdentarnir hjónin Þorbjörgu Arnórsdóttur og Fjölni Torfason sem tóku þeim opnum örmum, léðu þeim heilt hús til afnota, veittu leiðsögn um Þórbergssetur, stýrðu gönguferð um nágrenni Hala að hætti meistara Þórbergs Þórðarsonar og elduðu gómsætan kvöldverð. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur hélt einnig stórskemmtilegan fyrirlestur um Þórberg og las upp úr verkum hans. Á Hala hefur verið komið á fót afar vandaðri og fróðlegri sýningu um ævi Þórbergs, störf hans og æskuslóðir og Þorbjörg og Fjölnir jusu úr að því er virtist ótæmandi fróðleiksbrunnum sínum um skáldið og sveitina.

Um mánaðamótin maí-júní fóru átta 3. ársnemar í útskriftarferð til Færeyja og nutu samvista við frændur vora í fimm daga. Þeir heimsóttu nýstofnaða ræðisskrifstofu Íslands við höfnina í Þórshöfn, við hliðina á Kaffi Natúr sem margir kannast við, fengu kynningu á norrænudeildinni í Fróðskaparsetrinu, háskóla Færeyinga, keyrðu um eyjarnar og kynntust þessari heillandi menningu sem er svo lík okkar eigin en samt svo ólík. Stúdentarnir voru svo heppnir að upplifa menningarnótt í Þórshöfn og tóku m.a. þátt í alvöru færeysku danskvöldi, spreyttu sig á hringdansi og færeyskum þjóðvísum.

Í júlí héldu síðan ellefu nemendur ásamt kennara sínum, Bergljótu Kristjánsdóttur og manni hennar Aðalsteini Eyþórssyni, á alþjóðlega miðaldaráðstefnu á vegum háskólans í Leeds á Englandi – sömu ráðstefnu og farið var á fyrir rúmum áratug síðan. Ráðstefnan stóð yfir vikuna 9. – 12. júlí og var úrvalið af fyrirlestrum gríðarlegt, eða yfir 1000 erindi sem fjölluðu um allt frá glæpamönnum í enskum bæjum á 14. öld til hefndarskyldu í Eddukvæðum. Úrvalið var svo mikið að viðvaningar í útrás eins og þessir bláeygu stúdentar fylltust miklum valkvíða en þó held ég að megi fullyrða að allir hafi fundið eitthvað við sitt hæfi. Á ráðstefnunni voru tveir íslenskir fyrirlesarar, þeir Ármann og Sverrir Jakobssynir og að sjálfsögðu fylktu Íslendingarnir liði á fyrirlestra þeirra. Þegar hlé voru gerð á fyrirlestrum skoðuðu stúdentarnir borgina, kíktu jafnvel í nokkrar búðir, rannsökuðu pöbbamenninguna og spiluðu frisbí, nei afsakið – köstuðu svifdiskum ætti ég líklega frekar að segja á þessum degi, og einnig heimsótti hópurinn smábæinn Saltaire rétt utan við Leeds. Eftir ráðstefnuna dvaldi hópurinn síðan í tvo daga í London og saug í sig stórborgarmenninguna áður en haldið var heim á leið.

Í lok ágúst lagði enn einn íslenskunemahópurinn af stað, í þetta sinn til Lundúnaborgar á málfræðiráðstefnu sem Breska málfræðifélagið stendur fyrir árlega. Tveir kennarar voru með í för, Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson, og fluttu þeir báðir erindi um hina svokölluðu nýju þolmynd í íslensku. Á ráðstefnunni var mikið úrval spennandi fyrirlestra um margvísleg svið málfræðinnnar og voru stúdentarnir líklega alveg jafn valkvíðnir og félagar þeirra í Leeds. Þeir voru þó að vonum ánægðir með það sem fyrir augu og eyru bar og meðal annars vakti athygli þeirra fyrirlestur um tungumálið pirahã sem aðeins örfá hundruð manna tala, en rannsóknir á því máli hafa umbylt kenningum málfræðinga um allan heim hvað varðar mikilvægi endurkvæmra setningarliða. Auk fyrirlestra var á ráðstefnunni boðið upp á hraðnámskeið í norður-ameríska indíánamálinu slavey og nýttu íslenskunemarnir sér það sér til fróðleiks og ánægju. Líkt og Leedsfararnir könnuðu Londonfarar breskar búðir og pöbba, fóru á British Museum og ensku þjóðarbókhlöðuna, British Library, þar sem þau skoðuðu handritasýningu og margt fleira.

Nú hef ég lýst útrás íslenskunema og starfsemi þeirra á erlendri grundu. Þá er komið að lið númer tvö í greiningunni, en það er mat á árangri.

Helgarferðin að Hala þótti gríðarvel heppnuð og ég held að ferðalangarnir beri hlýjar tilfinningar til staðarins; náttúrufegurðin er mikil og gaman að sjá með eigin augum sveitina sem Þórbergur Þórðarson lýsir í bókum sínum. Íslenskunemarnir, sem margir vissu ýmislegt um Þórberg fyrir, juku við þekkingu sína og hjónin á Hala auk Soffíu Auðar veittu þeim nýja sýn á rithöfundinn og verk hans. Suðursveit skartaði sínu fegursta á sunnudeginum þegar nemendur héldu heim á leið og ég leyfi mér að fullyrða að einhverjir þeirra eiga eftir að heimsækja sveitina og Þórbergssetur aftur.

Heimsóknir til Færeyja ættu að mínu mati að vera eitt af kjarnanámskeiðum í íslenskunámi – svo fróðlegt er að kynnast tungumáli og menningu þessara frænda okkar. Til dæmis er hægt að sjá hvernig sömu fornnorrænu orðin hafa þróast í ólíkar áttir á þessum tveimur eyjum og ég efast um að til sé skemmtilegri leið við að læra málsögu en hlæja örlítið að færeyskunni.

Ráðstefnuferðirnar tvær voru gríðarlega lærdómsríkar fyrir íslenskunemana. Eins og ég hef áður nefnt sóttu þeir fróðlega fyrirlestra um ýmis málefni sem tengjast námi þeirra en annan og ekki síðri lærdóm hlutu þeir af því að kynnast samfélagi fræðimanna, spjalla við hámenntað fólk á sínum áhugasviðum og sjá hvernig svona ráðstefnur fara fram. Þarna hittast fræðimenn alls staðar að úr heiminum, kynna rannsóknir sínar og leita eftir viðbrögðum annarra, fá sér ölglas og rökræða um ýmis óleyst vandamál. Íslenskunemunum í Leeds, Bergljótu og Aðalsteini var boðið í garðveislu til prófessors Rory McTurk, en hann fékk riddarakross forseta Íslands í september sl. fyrir störf í þágu íslenskrar tungu og var það mikill heiður að vera boðin heim til hans. Í Leeds var boðið upp á sérmerktan ráðstefnubjór sem vakti að vonum áhuga stúdentanna en merkimiðinn á bjórnum sem málfræðinemarnir fundu á einum pöbbnum í London var þó enn meira viðeigandi, en það var skammstöfun alþjóðlega hljóðritunarstafrófsins, IPA.

Kannski var þó áhugaverðast af öllu að sjá íslenska fræðimenn stíga á stokk á stórum erlendum ráðstefnum og flytja erindi sem vöktu athygli og áhuga erlendra fræðimanna. Fyrirlestrar Sverris og Ármanns á miðaldaráðstefnunni voru að mati flestra íslenskunemanna sem á þá hlýddu með allra skemmtilegustu og fróðlegustu fyrirlestrunum á ráðstefnunni, en Sverrir talaði um kvikmyndaaðlaganir Íslendingasagna og Ármann fræddi áhorfendur um eðli drekans í Hringadróttinssögu. Á málfræðiráðstefnunni voru fyrirlestrar Jóhannesar og Þórhalls um nýju þolmyndina vel sóttir; fræðikonan Joan Maling flaug jafnvel sérstaklega alla leið frá Bandaríkjunum til að hlusta og taka þátt í líflegum umræðum að loknum fyrirlestri. Frammistaða íslensku fyrirlesaranna sýnir að rannsóknir Íslendinga á málfræði, bókmenntum og á öðrum sviðum hugvísinda geta varpað ljósi á rannsóknir í öðrum löndum og skipta máli í alþjóðlegu samhengi. Íslenska útrásin er ekki bara fyrir banka og fyrirtæki heldur líka íslenska fræðimenn og því frábært tækifæri fyrir nemendur – fræðimenn framtíðarinnar – að sjá það með eigin augum.

Þriðji og síðasti liður greiningar minnar hér í dag miðar að því að draga fram ástæður þess hve vel hefur tekist til við útrásina. Þá ber fyrst að nefna ástæðunar fyrir því að haldið var af stað. Nemendafélag íslenskunema, Mímir, stóð fyrir ferðinni að Hala, en Mímir er virkt félag og meðlimir þess jákvætt og skemmtilegt fólk sem hefur gaman af því að tvinna saman fróðleik og skemmtun.

Hugmyndirnar að ráðstefnuferðunum kviknuðu aftur á móti hjá okkar ágætu kennurum, Bergljótu og Jóhannesi Gísla; án frumkvæðis þeirra hefðu nemendurnir líklega aldrei farið. Leedsfarar fengu styrk úr Háskólasjóði til fararinnar og vil ég þakka kærlega fyrir þann stuðning. Londonfarar sýndu mikla hugmyndaauðgi og ákváðu að bjóða fyrirtækjum sem vildu styrkja þá upp á stutt námskeið í meðferð ritaðs máls, með góðum árangri bæði fyrir nemendurna og fyrirtækin.

Innan íslenskuskorar hefur að mínu mati verið afar jákvæður andi á þeim tíma sem ég hef stundað hér nám, en þessi jákvæðni birtist m.a. í öflugu félagsstarfi Mímis, trú kennara á nemendum og stuðningi við þá og síðast en ekki síst samstarfi nemenda og kennara á ýmsum sviðum, bæði við skipulag námsins, rannsóknir, ráðstefnuferðir og margt fleira. Það er frábært að vera íslenskunemi í dag og framtíðin er björt – möguleikar til starfs að loknu námi eru fjölbreyttir, ekki bara í útrás heldur líka t.d. við kennslu útlendinga eins og komið hefur fram hér í dag. Íslenska er málið okkar ástkæra ylhýra og við viljum efla það.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s