17. júní

Ræða haldin á hátíðardagskrá í Mývatnssveit 17. júní – en hvaða ár man ég því miður ekki! Líklega þó 2006 eða 2007.

Kæru Mývetningar og aðrir hátíðargestir

Það er mér sannur heiður að fá að taka þátt í þessum hátíðahöldum hér í dag. Ég hef reyndar einu sinni fengið að prófa það áður en fyrir nokkrum árum var ég í undirbúningsnefndinni og sá meðal annars um að mála andlit og gera allt tilbúið í Höfða. Það tókst reyndar ekki betur til en svo að ég held að öll börnin hafi verið nákvæmlega eins máluð og það sem verra er, það árið gleymdist alveg að draga fána að húni í Höfða, svo ég vona að mér takist aðeins betur til í hlutverki mínu í þetta skiptið.

Ég hef ákveðið að taka mér það bessaleyfi að tala fyrir hönd ákveðins hóps Mývetninga hér í dag, en þennan hóp kýs ég að kalla farfugla. Við farfuglarnir eigum það sameiginlegt að hafa eytt hér drjúgum hluta æskunnar en síðan yfirgefið sveitina til að fara í skóla eða stunda vinnu. En þó að við höfum að nafninu til yfirgefið heimahagana högum við okkur að mörgu leyti eins og fiðruðu vinir okkar sem yfirgefa sveitina á haustin og koma aftur á vorin, eini munurinn er líklega sá að við ungum ekki út eggjum hér á hverju sumri.

En við farfuglarnir og aðrir ungir Mývetningar eigum ýmislegt annað sameiginlegt, svo sem gamlar minningar. Þegar mér var falið að setja saman ræðu fyrir þetta tilefni datt mér í hug að gaman væri að komast að því hvað væri efst í huga ungra Mývetninga á þessum degi, 17. júní. Ég gerði því könnun, mjög óformlega reyndar, og bað þátttakendur að nefna það sem kæmi fyrst upp í hugann þegar þeir heyrðu minnst á 17. júní og Mývatnssveit. Ég býst við að hinn dæmigerði Íslendingur myndi nefna skrúðgöngur, fána, fjallkonur eða annað því líkt en í ljós kom að ungu Mývetningarnir nefndu næstum allir það sama: mývarginn. Í dag erum við reyndar ekki umkringd mývargi en ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög áhugavert hversu samofin mýflugan virðist vera hátíðahaldi á 17. júní hér í sveit.

Blessuð mýflugan já. Sveitin væri víst svipur hjá sjón án hennar og gæti ekki einu sinni borið nafn sitt með rentu. Við eigum þó mismunandi auðvelt með að þola þennan sveitunga okkar; ég held til dæmis að ég gleymi seint hvernig afi minn sálugi gat staðið pollrólegur inni í kolsvörtu vargskýi að gera við girðingar á meðan ég hringsnerist hoppandi og öskrandi við hliðina á honum, gjörsamlega að ærast. Ég komst þó aldrei upp með að bölva varginum, ég held svei mér þá að afa hafi þótt enn glæpsamlegra en að blóta honum en sjálfri sólinni. Seinna meir hef ég skilið betur að mýflugan var, og er, undirstaða lífsins í ánni og vatninu, og ein af ástæðum þess að Mývetningar lifðu af harðæri hér áður fyrr. En ég var nú samt orðin býsna stálpuð þegar ég komst að því að það var virkilega til fólk sem blótaði blessaðri mýflugunni og skammaðist sín ekki fyrir það!

Flest höfum við einhvern tímann verið spurð af utansveitarfólki hvernig í ósköpunum við förum að því að lifa af hér á sumrin en í mínum huga er þessi spurning kjánaleg og í raun ekki þess virði að svara í fullri alvöru. Mývetnskir farfuglar koma alltaf aftur þrátt fyrir öskugrá ský í vegköntunum, iðandi skán utan á bílum og húsum og endalausa vinnu við að ryksuga gluggakistur, og mér finnst afar ótrúlegt að mýflugan skipti nokkru máli þegar kemur að því að ungur Mývetningur ákveði hvort hann snúi heim aftur eða yfirgefi sveitina fyrir fullt og allt. Þótt mýflugan sé kannski ekki besti vinur mannsins er hún jafneðlilegur hluti af sveitinni okkar og fjöllin, vatnið, hraunið og fólkið, hún er hluti af sögu okkar og tilveru – þó að við blótum henni stundum. Mér finnst þess vegna bara þónokkuð viðeigandi að þjóðhátíðardagurinn og mýflugan séu nátengd í hugum okkar Mývetninga. Flestar þjóðir og þjóðfélagshópar eiga sér þjóðernistákn sem eiga að vekja samkennd og efla samstöðu fólksins og þessum táknum er oft gert hátt undir höfði á dögum eins og þessum sem við höldum upp á í dag. Mér sýnist að mýflugan hafi sjálf séð um að gera sig að þjóðernistákni Mývetninga með því að mæta samviskusamlega á hverju einasta ári og fagna með okkur á þessum degi, nema þegar vindurinn feykir henni burtu. Það liggur við að ég sakni hennar í dag.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og fyrir hönd mývetnskra farfugla óska ég þess að sveitin okkar haldi áfram að vera æskilegur áningarstaður. Einnig vil ég nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með að þrátt fyrir að samfélagið okkar hafi orðið fyrir ýmsum áföllum í atvinnulífinu er greinilega engan bilbug að finna á þeim sem hér búa. Við farfuglarnir þurfum að leggjast á eitt með staðfuglunum og halda áfram þeirri nýsköpun og eflingu atvinnu sem hér er í gangi því ég held að innst inni langi okkur langflest til að setjast hér að lengur en sumarlangt, og jafnvel unga út eggjum.

Takk fyrir og gleðilega hátíð.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s