Merkjaskipt greinasafn: orðanotkun

Að búa eða búa ekki til homma

Fyrir nokkrum árum síðan var ég stödd á háskólaviðburði í Reykjavík og hitti mann sem spurði mig út í doktorsverkefnið, eins og gengur. Ég nefndi íslenskan miðaldatexta (sem varð þó á endanum ekki hluti af minni rannsókn) og að ég væri að skoða tvær karlpersónur og náið samband þeirra. Viðbrögðin sem ég fékk voru:

„Nú já, ætlarðu að fara að gera þá að hommum?“

Þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá stöðu sem bókmenntarýnar sem skoða samkynja ástir og þrár í bókmenntaverkum eru oft í, það er að þurfa að velta fyrir sér hvort þeir eigi á hættu að verða gagnrýndir fyrir að oftúlka eða lesa „of mikið“ í verkin og í framhaldi af því hvort þeir séu jafnvel að móðga höfundinn eða minningu hans með því að bendla hann við samkynhneigð. Hér finnst mörgum mikilvægt að stíga varlega til jarðar en ég er á þeirri skoðun að það sé – eða ætti í það minnsta að vera – algjör óþarfi. Og ég skal segja ykkur af hverju.

Vinaást

Tökum sem dæmi ljóð eftir eitt virtasta skáld þjóðarinnar, Stephan G. Stephansson, sem Stephanssérfræðingurinn og öðlingurinn Viðar Hreinsson benti mér á. Ljóðið heitir „Frá æskudögunum“ og er ort árið 1882 þegar Stephan var 29 ára gamall og fluttur vestur um haf. Þar ávarpar ljóðmælandi æskuvin sinn sem hann hefur ekki séð lengi en saknar mjög. Hann fer fögrum orðum um vininn, traust hans og hreina sál og þær sterku tilfinningar sem hann ber í brjósti. „Langt er síðan nú við fundumst fyrst. / – Fyrri þú mér réttir vinarhendi, / svo er okkar ástasaga styzt, / elska þig sem bróður mér það kenndi, –“ segir hann og heldur áfram:

Screenshot 2015-10-09 09.12.58

(Andvökur, IV. bindi, 1958, bls. 148–152)

Stöldrum aðeins við hér og spyrjum nokkurra spurninga.


1) Eru ljóðmælandinn og vinur hans hommar?

Nei, það er hægt að fullyrða að þeir séu ekki hommar ef við göngum út frá því að samkynhneigð sé hugmynd og/eða orðræða sem er samfélags- og menningarlega mótuð frekar en eðlisþáttur mannsins sem hefur alltaf verið til. Þegar um er að ræða hugtök eins og samkynhneigð í sögulegu samhengi takast með öðrum orðum á, eins og svo oft, mótunarhyggja og eðlishyggja og um þetta er fólk alls ekki sammála. Mótunarhyggjan hefur þó undanfarið yfirleitt orðið ofan á, held ég að megi segja, meðal þeirra sem vinna á sviði hinsegin fræða og rannsókna og ég fylgi henni, sér í lagi kenningu Foucaults um að samkynhneigði einstaklingurinn hafi „fæðst“ eða orðið til í vestrænni orðræðu undir lok 19. aldar.

Ég skal reyna að orða þetta á mannamáli: Foucault og þeir sem honum fylgja líta svo á
að þótt fólk hafi stundað kynlíf með aðilum af sama kyni frá alda öðli varð hugmyndin um samkynhneigða einstaklinginn sem sérstaka „tegund“ af manneskju – sem sefur ekki bara hjá heldur hefur ákveðin persónueinkenni og sjálfsmynd og skilgreinir sig eða er skilgreind á ákveðinn hátt – ekki til fyrr en seint á 19. öld og hún breiddist mishratt út. Á Íslandi var hún ekki komin inn í hugarheim almennings fyrr en á 3. áratug 20. aldar í fyrsta lagi – líklega síðar. Þess vegna er mjög vafasamt að nota orð eins og samkynhneigð, hommi og lesbía um fólk og persónur fyrir þennan tíma, þar sem í því felst að þröngva hugmyndum og hugsunarhætti síðari hluta 20. aldar upp á fortíðina og það býður upp á misskilning og mistúlkun.

2) En þeir kyssast og faðmast og ljóðmælandinn segist elska vin sinn. Sýnir það ekki að þeir séu elskhugar?

Nei, ekki endilega. Kannski.

Við lifum í vestrænum heimi 21. aldar þar sem fólk er oftast flokkað sem gagnkynhneigt og samkynhneigt* þar sem hið fyrrnefnda er normið og hið síðarnefnda er í besta falli pínulítið öðruvísi og í versta falli óæskilegt, hættulegt eða ógeðslegt. Hómófóbía er hræðsla við samkynhneigð og hún felur í sér sterka þörf til að draga skýrar línur milli þess gagnkynhneigða og þess samkynhneigða, vegna þess að ef línurnar eru skýrar er minni hætta á að lenda „vitlausu megin“ og auðveldara að halda þeim samkynhneigðu í öruggri fjarlægð. Þessar línur snúast mikið til um að skilgreina hvað sé kynferðislegt og hvað ekki. Þess vegna gilda víða ákveðnar óskráðar reglur í samskiptum fólks af sama kyni. Mörgum karlmönnum finnst til dæmis óþægilegt eða rangt að kyssa vini sína, faðma þá alúðlega eða tjá þeim tilfinningar sínar – af því að þá eru þeir komnir hættulega nálægt línunni sem ekki má fara yfir án þess að vera talinn samkynhneigður.

Aftur á móti er hómófóbía ekki til (eða mun áhrifaminni) í heimi þar sem tvískiptingin í gagn- og samkynhneigð er ekki ríkjandi (eða jafnvel ekki til) og þar af leiðandi eru reglurnar um ásættanlega hegðun öðruvísi. Ef þú veist ekki að þú stendur á bjargbrún ertu ekki hrædd við að detta fram af, er það? Og þá er engin ástæða til að hegða sér á ákveðinn hátt til að forðast að detta. Að sama skapi má álykta að ljóðmælandinn í ljóði Stephans G. árið 1882 hafi ekki þurft að óttast að segja frá ást sinni eða kossum því það var lítil hætta á að hann yrði fordæmdur fyrir það. Það eru til mýmörg dæmi um ljósmyndir frá þessum tíma þar sem karlmenn stilla sér upp í mjög innilegum stellingum og þessar myndir benda til þess að reglurnar eða mörkin í samskiptum vina af sama kyni hafi verið aðrar en í dag.** Þá má færa rök fyrir því að það hafi ekki verið þörf á því að draga skýra línu á milli þess kynferðislega og þess ókynferðislega – milli elskhuga og „bara vina“ – því önnur hliðin á þessum peningi var ekki til í hugum fólks.

(Þessi mynd er úr bók eftir John Ibson, Picturing Men: A Century of Male Relationshipsin Everyday American Photography, 2006)

Það er sérlega áhugavert við lokalínurnar í erindinu sem ég vitnaði í hér að ofan að ljóðmælandinn tekur fram að kyn vinarins skipti máli hvað varðar hvernig hegðun þeirra er túlkuð. Hann segir sem sagt að ef vinurinn hefði verið kona hefðu kossar þeirra og faðmlög verið túlkuð sem ósiðlegt athæfi eða í það minnsta verið tilefni til slúðurs. Þetta styður að mínu mati þá kenningu að hugmyndin um tvo karla sem elskhuga hafi ekki verið möguleg í hugarheimi ljóðmælandans og þess vegna var ekki ástæða til að óttast hana.

Screenshot 2015-10-09 09.18.23Ekkert af ofangreindu útilokar hins vegar að ljóðmælandinn og vinurinn hafi verið elskhugar. Það er allt undir túlkun lesandans komið.

3) Er ég að oftúlka ljóðið ef ég segi að það fjalli um samkynja ást eða þrá?

Nei, ekki að mínu mati. Þótt ekki sé viðeigandi að tala um homma fyrr á öldum og við komumst að þeirri niðurstöðu að ljóðmælandinn og vinurinn hafi líklega verið „bara vinir“ og ekki elskhugar má samt sem áður vel tala um samkynja ást í þessu samhengi. Því það er það sem þetta er, ekki satt? Tveir karlar sem elska hvor annan.

Hugtakið samkynja félagsþrá*** (e. homosocial desire) sem Eve Kosofsky Sedgwick þróaði og setti fram í bókinni Between Men er hjálplegt í þessu samhengi. Hún lagði til að öll sambönd og tengsl aðila af sama kyni væru hugsuð út frá skala frekar en flokkum. Á öðrum enda skalans eru þá kynferðisleg tengsl (homosexual) og á hinum tengsl sem eru félagsleg en ekki kynferðisleg (homosocial). Öll þessi tengsl falla undir samkynja félagsþrá eða þrá fólks eftir samskiptum og samböndum við aðila af sama kyni. Ef unnið er út frá þessum hugmyndum er hægt að tala almennt um sambönd aðila af sama kyni án þess að skilgreina hvort þau séu kynferðisleg eða ekki. Það er nefnilega oftar en ekki sambandið sjálft sem er áhugavert en ekki hvort það er „bara vinátta“ eða „eitthvað meira“. Skiptir það til dæmis einhverju máli varðandi upplifun og túlkun lesandans á ljóði Stephans? Skiptir máli hvort þeir kysstust á munninn eða kinnina? Með tungu eða ekki? Hvort þeir struku hvor öðrum um vangann eða hvort þeir höfðu samfarir? Er ekki mun áhugaverðara að einblína á tilfinningarnar, söknuðinn, ástina, sektarkenndina, nándina, fjarlægðina?

Ég kýs að nota hugtakið eða orðalagið „samkynja ástir og þrár“ í svipuðum skilningi og Sedgwick talar um samkynja félagsþrá og ég geri ekki þá kröfu að þessar ástir og þrár séu kynferðislegar. Stundum er kynlífið hluti af rannsóknarefninu og stundum ekki en það á ekki að þurfa að vera atriðið sem sker úr um það hvort ákveðinn bókmenntatexti er valinn sem viðfangsefni eða ekki.

4) Ef ljóðið fjallar um samkynja ást, var Stephan G. þá hommi eða fyrir karlmenn?

Það ætti að vera óþarfi að svara þessari spurningu en þetta er engu að síður algeng hugsun. Svo höfum eitt á hreinu: það er engin bein eða sjálfgefin tenging milli umfjöllunarefnis ljóðs og skáldsins sjálfs. Það að ljóð fjalli um samkynja ástir gefur okkur ekki ástæðu til að draga ályktun um kynhneigð höfundarins. Það getur vakið upp hugsanir og vangaveltur, vissulega, og oft er tenging þarna á milli en ljóð eru ekki ævisögur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Stephan G. hafi verið fyrir karlmenn en það getur vel verið – það kemur bara málinu lítið sem ekkert við.

Lokaorð

Í fyrsta lagi: Bókmenntarýnar sem skoða hinsegin bókmenntir eru ekki að fara gera neina að hommum, því það er ekki á okkar færi (sem betur fer). Í öðru lagi: Hræðslan við að fjalla um samkynja ástir og þrár í bókmenntum og „oftúlka“ þær er að mínu viti sprottin af sama meiði og hómófóbía – gott ef hún er ekki bara ein tegund af hómófóbíu. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að stíga varlega til jarðar þegar fjallað er um samkynja ástir og þrár í bókmenntum af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert að hræðast.

– – –

*Þetta er reyndar að breytast og hinsegin aktívismi er farinn að hafa þau áhrif að fólk er í auknum mæli flokkað í marga flokka en ekki bara tvo, þ.e. sú hugmynd að það séu ekki bara til tvær kynhneigðir heldur margar og að fólk eigi að fá að skilgreina sig sjálft er orðin útbreiddari en áður.

**Ég hef heyrt af mjög áhugaverðri lokaritgerð um kossa karlmanna á Íslandi í kringum 1900 sem verður unnin upp í grein von bráðar. Fylgist með.

***Þessi þýðing er til bráðabirgða en ekki fullmótuð. Aðrar tillögur eru vel þegnar.

Meðal þess lesefnis sem byggt er beint og óbeint á þessum pistli:

Foucault, Michel. The Will to Knowledge. La Volonté de savoir, 1976. Þýð. Hurley, Robert. The History of Sexuality. Vol. 1. London: Penguin, 1978.

Halperin, David M. One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love. New York: Routledge, 1990.

Sedgwick, Eve Kosofsky. Between Men: English Literature and Male Homosocial Desire. New York: Columbia University Press, 1985.

Hvað er hinsegin? Síðari hluti

Eins og fram kom í lok fyrri hluta þessa pistils hefur orðið hinsegin verið notað í ýmiss konar merkingu frá aldamótunum 2000:

1) Um það sem er ,öðruvísi‘ eða ,skrýtið´, sbr. „svona og hinsegin“, oft í fremur neikvæðri merkingu.

2) Hinsegin er akademískt hugtak (sbr. hinseginfræði) sem var tekið upp í íslensku fræðasamfélagi rétt fyrir aldamótin. Í þessu samhengi er það þýðing á enska hugtakinu queer og merking þess er sú sama (sjá fyrri pistil um queer).

3) Hinsegin er einnig notað utan fræðaheimsins sem þýðing á queer eins og það hefur verið notað meðal enskumælandi aðgerðasinna síðan um 1990. Þá er merking orðsins róttæk og miðar að því að brjóta upp hvers konar norm er varða kyn, kyngervi og kynverund.

4) Loks er hinsegin notað til að vísa til sjálfsvitundar (e. identity) og þá einnig sem verkfæri í pólitískri réttindabaráttu. Við þetta er nauðsynlegt að bæta að sem sjálfsvitundarhugtak vísar hinsegin stundum til samkynhneigðra eingöngu en það er líka notað sem regnhlífarhugtak yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, pankynhneigða, transfólk, intersex fólk o.s.frv.hinseginhinsegin

Hér á eftir verður reynt að gera grein fyrir þessum ólíku hliðum hugtaksins hinsegin og hvernig þær hafa birst á Íslandi það sem af er liðið 21. öld, auk þess sem rætt verður um vandamál sem tengjast notkun orðsins og mögulegar lausnir.

Margt af því sem hér kemur fram er byggt á reynslu minni af starfi með hinsegin félagasamtökum síðan 2009 (fyrst og fremst Q – félagi hinsegin stúdenta og Hinsegin dögum) og samræðum við vini og kunningja og það er því litað af minni persónulegu sýn og skoðunum. Ýmislegt er einnig sett fram í formi hugmynda og vangaveltna sem eiga vafalaust eftir að þróast og breytast á næstu árum. Loks getur vel verið að eitthvað hafi læðst hingað inn sem er rangt eða orkar tvímælis og bið ég lesendur í öllum bænum að láta mig vita ef svo er. Með öðrum orðum, gagnrýni og umræður eru velkomnar!

Hinseginfræði

Þýðinguna hinseginfræði (eða hinsegin fræði) yfir það sem á ensku kallast queer theory má að öllum líkindum rekja til skrifa tveggja íslenskra bókmenntafræðinga á árunum 1998 og 1999. Annars vegar er um að ræða grein Geirs Svanssonar, „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“ sem birtist í Skírni árið 1998 og hins vegar „Skápur, skápur, herm þú mér…“ eftir Dagnýju Kristjánsdóttur sem birtist í greinasafninu Undirstraumum árið 1999. Þessar tvær greinar marka upphaf hinsegin rannsókna (e. queer studies) á Íslandi og síðan hefur skapast hefð fyrir því að þýða queer sem hinsegin í akademísku samhengi.

Hið akademíska hugtak hinsegin/queer er róttækt og byggir meðal annars á póststrúktúralískum kenningum um afbyggingu. Á mannamáli þýðir það að hinseginfræði gagnrýnir tvíhyggjuhugsun um kyn, kyngervi og kynverund, til dæmis þær hugmyndir að fólk sé annaðhvort gagn- eða samkynhneigt, og leitast við að brjóta niður – af-byggja – ríkjandi samfélagsnorm sem draga fólk í dilka og setja því „reglur“ um til dæmis kyntjáningu og kynhegðun (sjá nánar í pistli um queer).

Hinsegin sjálfsvitund

Áður en lengra er haldið í umfjöllun um hinsegin sem sjálfsvitundarhugtak er rétt að undirstrika ákveðinn grundvallarmun sem er á notkun orðsins í þessu samhengi nú og til dæmis á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Hinsegin er í dag notað af hinsegin fólki á jákvæðan og eflandi hátt um það sjálft, sem er ólíkt því sem áður var þegar algengara var að gagnkynhneigðir notuðu orðið á neikvæðan hátt um hinsegin fólk. Hinsegin er auðvitað notað af gagnkynhneigðum í dag líka, og eflaust oft á neikvæðan hátt, en notkun orðsins í sjálfsvitundarpólitík á Íslandi síðan á síðasta áratug 20. aldar hefur beinst að því að snúa hinni gömlu og neikvæðu merkingu orðsins á hvolf og beita hugtakinu á jákvæðan hátt – svipað því sem gert hefur verið við queer í hinum enskumælandi heimi. Þetta á bæði við um það þegar hinsegin er notað í merkingunni ,samkynhneigð´ og þegar það er notað sem regnhlífarhugtak yfir breiðari hóp fólks.

Hinsegin = samkynhneigð

Á Timarit.is má sjá að þegar líða fór á 10. áratug síðustu aldar var hinsegin í auknum mæli tekið upp og notað af samtökum samkynhneigðra á Íslandi. Sem dæmi má nefna að í mars 1995 héldu Samtökin ’78 „Hinsegin bíódaga“ og í janúar 1999 voru sömuleiðis haldnir „hinsegin dagar“ á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og um leið var Félag samkynhneigðra stúdenta (FSS) stofnað. Hinsegin dagar í Reykjavík voru formlega stofnaðir árið 1999 en hátíðin það ár var kölluð „Hinsegin helgi“ og haldin í lok júní.

Ljóst er að á þessum árum merkti hinsegin í þessu samhengi fyrst og fremst ,samkynhneigð‘, ekki bara í meðförum fjölmiðlafólks heldur líka meðal þeirra sem kölluðu sig hinsegin. Í pistli eftir einn af stofnendum FSS árið 1999 kemur til dæmis fram að á hinsegin þemadögum í HÍ verði „málefni homma og lesbía […] í brennidepli“.  Í fréttatilkynningu sem birt var í blöðum í tengslum við Hinsegin helgi  sama ár segir að „fjögur félög samkynhneigðra“ skipuleggi hátíðahöldin „að hætti lesbía og homma um allan heim“. Forsvarsfólk Hinsegin daga í Reykjavík talaði enn fremur nær eingöngu um samkynhneigða í fjölmiðlaviðtölum fram yfir miðjan áratuginn.

Hinsegin = regnhlífarhugtak

Fyrstu merkin um að hinsegin sé notað sem regnhlífarhugtak yfir samkynhneigð og tvíkynhneigð sjást í fjölmiðlum árið 2002 (það þýðir þó vitanlega ekki að orðið hafi ekki verið notað á þennan hátt fyrr). Þá var til dæmis búið að breyta nafni stúdentafélagsins íq logo „Félag sam- og tvíkynhneigðra stúdenta (FSS)“ (sjá pistil frá formanni FSS í Morgunblaðinu 6. júlí). Sama ár birtist lítil frétt í Morgunblaðinu 10. ágúst þar sem segir að fána tvíkynhneigðra verði flaggað í fyrsta sinn á Íslandi á Hinsegin dögum.  Smám saman fara að birtast umfjallanir þar sem rætt er um tvíkynhneigð á sama tíma og samkynhneigð og orðið hinsegin er stundum greinilega notað til að ná yfir hvort tveggja.

Þörfin fyrir að stækka regnhlífina og innlima transfólk og málefni þess í starfsemi hinsegin félagasamtaka jókst eftir því sem líða tók á fyrsta áratug aldarinnar og enn virðist stúdentafélagið hafa riðið á vaðið. Nafni FSS var breytt aftur og árið 2006 er talað um „félag samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptra stúdenta“ í viðtali við formann félagsins í Fréttablaðinu. Árið 2007 var nafni félagsins breytt í „félag hinsegin stúdenta“en þá voru félagar þess einnig farnir að prófa sig áfram með notkun skammstafana á borð við STT (samkynhneigð, tvíkynhneigð, transgender).

Árið 2008 hætti stúdentafélagið loks að ganga undir skammstöfuninni FSS og varð að Q – félagi hinsegin stúdenta. Á sama tíma virðist skammstafanotkunin að mestu hafa verið gefin upp á bátinn og hinsegin notað í staðinn. Önnur félög fylgdu í kjölfar Q-félagsins, kenndu sig við hinsegin og bættu tvíkynhneigð og transmálefnum (og nú nýlega einnig intersex) formlega á sína stefnuskrá. Samtökin ’78 hétu „félag lesbía og homma á Íslandi“ til ársins 2009 þegar heiti félagsins var breytt í „félag hinsegin fólks á Íslandi“ (sjá ársskýrslur 2008–2009 og 2009–2010). Hið enska heiti Hinsegin daga var enn fremur „Reykjavík Gay Pride“ til ársins 2014 þegar því var formlega breytt í „Reykjavík Pride“ á aðalfundi félagsins og þar með var staðfest að „hinsegin dagar“ væru ekki einungis „samkynhneigðir dagar“ heldur hátíð fyrir mun breiðari hóp.

lgbt

Hinsegin eða STT – queer eða LGBTI?

Frá aldamótum hefur hinsegin sem sagt fengið sífellt veigameira hlutverk sem regnhlífarhugtak. Sem slíkt þjónar það svipuðu hlutverki og skammstafanarunur á borð við LGBTI (Lesbian, gay, bisexual, trans, intersex) gera í ensku máli. Sambærilegar íslenskar skammstafanir hafa ekki náð fótfestu af einhverjum ástæðum, kannski af því að Íslendingar eru almennt ekki eins gjarnir á að skammstafa alls kyns hugtök og heiti og enskumælandi þjóðir.

Þótt queer sé einnig oft notað sem regnhlífarhugtak (sjá pistil um queer) held ég að óhætt sé að fullyrða að regnhlífarhlutverk hinsegin sé mun almennara og samþykktara meðal Íslendinga en sambærileg notkun queer meðal enskumælandi fólks. Hinsegin hefur á mjög stuttum tíma orðið að hinu „pólitískt rétta“ orði sem fjölmiðlar og almenningur er í ríkum mæli farið að nota þegar vísa á til samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks og intersex Screen Shot 2014-11-07 at 17.53.19fólks. Hinsegin hefur líka slegið í gegn sem slagorð og er notað óspart í alls kyns samhengi, bæði af hinsegin og ekki-hinsegin fólki, t.d. í auglýsingum (markaðssetning orðsins er í raun efni í heila grein út af fyrir sig). Queer er aftur á móti mun meira stuðandi orð og tiltölulega sjaldan notað í þessu samhengi af öðrum en hinsegin fólki – í það minnsta er það mín tilfinning eftir að hafa búið í enskumælandi landi í rúm fjögur ár. Hið „pólitískt rétta“ í ensku virðist aftur á móti vera að nota skammstafanir eins og LGBTI. Að þessu leyti eru hinsegin og queer því ólík hugtök.

Hinsegin = róttæk uppreisn gegn gagnkynhneigðum normum

Eins og komið var inn á í fyrri pistli eru margir á því að orðið queer missi róttækni sína þegar það er notað sem regnhlífarhugtak, því þótt því sé ætlað að rúma alla þá sem ekki falla að gagnkynhneigðum og sís samfélagsnormum er raunin oft alls ekki sú. Þessi hugsun hefur einnig náð til Íslands. Þegar stúdentafélagið breytti um nafn árið 2008 og varð að Q – félagi hinsegin stúdenta skrifaði formaður þess, Brynjar Smári Hermannsson, pistil þar sem hann sagði meðal annars:

„Stefnubreytingin frá STT yfir í hinsegin er stórt skref og felur í sér ákveðna pólitíska afstöðu gagnvart þeirri hagsmunabaráttu sem við erum hluti af. Hvatningin og hugmyndafræðileg undirstaða hennar hefur aðallega fengist í gegnum ANSO, samband hinsegin stúdentafélaga á Norðurlöndunum, og er í takt við þær breytingar sem flest systurfélaga okkar eru einnig að ganga í gegnum.  Hún felst í því að gömlu stimplarnir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og trans, eru lagðir til hliðar á þessum vettvangi og í staðinn er einblínt á það sem sameinar okkur öll í einum málstað, þ.e. að eitthvað í fari okkar er í andstöðu við það sem samfélagið ætlast til, á skjön við hið gagnkynhneigða forræði, kerfi ótalmargra breyta þar sem aðeins þröng einkunn/afstaða þykir „venjuleg“ hverju sinni.“

Í þessum orðum felst yfirlýsing um að Q-félagið noti hinsegin ekki sem regnhlífarhugtak heldur í róttækri merkingu í anda queer-aktívisma sem hafði þegar þarna var komið sögu breiðst út frá Bandaríkjunum um hinn vestræna heim og jafnvel víðar. Í þessu samhengi er hinsegin sem sagt þýðing á queer og nátengt hinu akademíska hinsegin-hugtaki.Not Gay as in Happy but Queer as in Fuck You

Það er hins vegar alls ekki auðvelt að greina hvenær hinsegin þjónar slíku róttæku hlutverki og hvenær það er regnhlífarhugtak. Þegar hinsegin er í raun og veru notað til að vísa til transfólks, intersex fólks og pankynhneigðra er virkni þess til dæmis býsna róttæk – eða getur verið það að minnsta kosti. Regnhlífin og róttæknin renna því oft saman og líklega nota margir hugtakið með báðar þessar merkingar í huga, ýmist samtímis eða til skiptis. (Þetta er atriði sem gaman væri að ræða, til dæmis í athugasemdum hér fyrir neðan.)

Gagnrýnisraddir

Samhliða aukinni notkun hinsegin í umræðu um hinsegin fólk hefur hugtakið einnig verið gagnrýnt og komið hefur í ljós að ekki eru allir sáttir við það. Í febrúar 2014 birtist til dæmis aðsend grein á vefnum Bleikt.is þar sem Birna Guðmundsdóttir sagðist ekki geta „orða bundist lengur“ og tjáði óánægju sína með að í fréttum og meðal forsvarsmanna Samtakanna ’78 væri ítrekað talað um samkynhneigða sem hinsegin. „Það er akkúrat EKKERT HINSEGIN við okkur. Við erum alveg eins og aðrar fjölskyldur,“ sagði hún og vísaði þar með til konu sinnar og sonar. Í hennar augum var orðið hinsegin hlaðið neikvæðri merkingu, niðrandi og niðurlægjandi. Þessi pistill fékk þónokkrar undirtektir á samfélagsmiðlum, sér í lagi frá samkynhneigðu fólki sem sagðist einnig upplifa óþægindi og særindi þegar það væri kallað hinsegin eða „öðruvísi“.

Í kjölfarið skapaðist athyglisverð umræða um orðið hinsegin á netinu og víðar. Anna Pála Sverrisdóttir, sem þá var formaður Samtakanna ’78, svaraði pistli Birnu og útskýrði nauðsyn þess að hafa hugtak sem næði yfir fleiri hópa en bara samkynhneigða. Það mætti gjarnan vera eitthvað annað en orðið hinsegin en enn sem komið væri hefði ekkert betra orð fundist og skammstafanir hefðu ekki fest í sessi.

Jákvætt eða neikvætt?

Árið 2007 skrifaði Auður Halldórsdóttir grein fyrir vefritið Hugsandi.is og benti þar meðal annars réttilega á að „[g]allinn við hinsegin hugtakið þegar það er notað yfir hóp fólks er hversu óskýrt er um hverja er átt við í hvert skipti. Eru það samkynhneigðir, sam- og tvíkynhneigðir, sam- tvíkynhneigðir og transgender fólk, eða allt það fólk sem ekki hlýtir lögmálum gagnkynhneigðs forræðis.“ Við þetta má bæta að merking hinsegin er óskýr að því leyti að hún er stundum jákvæð og stundum neikvæð, því neikvæða merkingin (,hinsegin er öðruvísi og þar með óæskilegt´) er alls ekki horfin. Þessi margræðni hefur á síðustu árum skapað ákveðin vandamál og ágreining, sem meðal annars má sjá í ofangreindum pistli Birnu og svari Önnu Pálu.

Kjarninn í grein Birnu er að hinsegin sé niðrandi orð. Undir lok sinnar greinar spyr Anna Pála aftur á móti: „Er ekki bara allt í góðu að hrista aðeins upp í norminu? Þurfum við öll að vera eins og sýna fram á að við pössum inn í gagnkynhneigða forræðið? […] Er eitthvað niðrandi að vera ekki eins og meirihlutinn?“ Þarna rekast með öðrum orðum á annars vegar hin hefðbundna neikvæða merking orðsins hinsegin og hins vegar sú jákvæða merking sem lögð hefur verið í hugtakið í sjálfsvitundarpólitík hinsegin fólks síðan á 10. áratugnum.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að einstaklingur upplifi óþægindi þegar hann er sagður vera hinsegin. Aftur á móti nota félög á borð við Samtökin ’78 hinsegin á jákvæðan og uppbyggjandi hátt og því er ekki réttmætt að saka þau um að tala niðrandi um samkynhneigða þegar þau segja að félagsmenn þeirra séu hinsegin. Gagnrýni á orðið hinsegin eins og sú sem birtist í pistli Birnu byggist því að hluta til á misskilningi (þegar henni er beint gegn Samtökunum, t.d.) og að hluta til á óánægju sem vaknar þegar einstaklingur er kallaður nafni sem vissulega getur haft neikvætt merkingargildi. Og á meðan hinsegin hefur þessa margræðu merkingu er erfitt að koma í veg fyrir svona ágreining.

Víðsýni – eða hvað?gay capitalism

Vandamálið sem Auður bendir á, varðandi það hve óljóst það er oft hvort hinsegin vísar til samkynhneigðra eingöngu eða breiðs hóps fólks sem ekki er gagnkynhneigt og sís, er jafnvel enn erfiðara viðfangs. Eins og áður hefur verið nefnt er hinsegin orðið að „pólitískt réttu“ hugtaki í umræðu um málefni samkynhneigðra, tví- og pankynhneigðra, transfólks og intersex fólks og mikil orka hefur farið í að sýna Íslendingum fram á réttmæti þess að tala um hinsegin en ekki samkynhneigð – fyrst og fremst af því að þannig er hægt að komast hjá því að skilja jaðarsetta minnihlutahópa útundan í umræðunni. Þessari „kennslu“ er þó langt frá því að vera lokið og enn eru mjög margir fastir í því að tala eingöngu um samkynhneigð og homma og lesbíur.

Að því sögðu má alls ekki líta svo á að stefnan sé að eyða orðinu samkynhneigð úr tungumálinu. Hommar og lesbíur eru minnihlutahópar sem þurfa á sínum hugtökum að halda og samkynhneigð sjálfsvitund er mörgum mikilvæg. Vandamálið skapast þegar einhver (einstaklingur, félag, stofnun, fjölmiðill eða hver sem er) notar orðið hinsegin en meinar í raun samkynhneigð. Þessi orðnotkun er alls ekki röng, því eins og fram hefur komið er ,samkynhneigður´ ein af orðabókarmerkingum orðsins hinsegin og var þangað til fyrir um áratug síðan sú merking sem flestir lögðu í orðið í þessu samhengi. Nú þegar hinsegin er orðið að mikilvægu regnhlífarhugtaki og lögð er áhersla á margbreytileika þess hóps sem rúmast þar undir er aftur á móti hætta á því að sá aðili sem segir „hinsegin fólk“ líti út fyrir að vera mun víðsýnni, eða það sem á ensku kallast „inclusive“, en hann er í raun og veru.

Að lokum: Nauðsyn þess að vera meðvituð um merkingu orða

Ef ég réði því hvernig fólk notaði og skildi íslenska tungu myndi ég gera tvennt: Í fyrsta lagi útrýma hinni neikvæðu merkingu orðsins hinsegin og láta alla upplifa margbreytileika lífsins og heimsins á jákvæðan hátt. Því meira hinsegin, því betra, er gott mottó, alveg þangað til hinsegin verður normið. (Hvað gerist þá veit ég ekki alveg). Í öðru lagi myndi ég útrýma notkun orðsins hinsegin í merkingunni ,samkynhneigð´, því ég tel að hún sé óheppileg og óæskileg. Á meðan sú merking er enn viðurkennd er of auðvelt fyrir fólk að grípa hinsegin-hugtakið á lofti, nota það ótt og títt og þykjast þannig stunda pólitíska rétthugsun án þess að nokkuð búi þar að baki.

Því miður, og þó sem betur fer, hef ég ekki slíkt vald og þessi merkingarbrigði hugtaksins hinsegin munu líklega ekki hverfa á næstunni. Ég hef litla trú á því að það sé áhrifaríkt að segja íslenskum málhöfum hvernig þeir eiga að tala eða hvaða orð þeir eiga að nota – allavega ekki án þess að útskýra hvað þeir græða á því. Ef ég vildi fá kunningja minn til að nota orðið hinsegin í staðinn fyrir samkynhneigð, til dæmis, myndi ég höfða til réttlætiskenndar hans og útskýra að með því að tala bara um samkynhneigða sé hann að skilja útundan fólk sem berst sömu baráttu um samfélagslega viðurkenningu og réttindi og samkynhneigðir. Þegar upp er staðið er það hann sem ákveður hvaða orð hann notar og það er líklegra að hann velji hinsegin ef hann áttar sig á því að þannig sýni hann að hann sé góð og réttsýn manneskja.

Þá erum við komin að kjarna málsins sem ég tel að sé meðvitund hvers og eins málhafa um áhrif þeirra orða sem hann, hún eða hán notar og um það vald sem felst í að velja ákveðin orð en ekki önnur. Eina raunhæfa leiðin til að draga úr misskilningi hvað varðar notkun orðsins hinsegin er líklega að hvetja íslenska málhafa til að vera meðvitaða um hvað þeir eiga í raun og veru við þegar þeir nota orðið. Að sama skapi er mikilvægt að fólk sem heyrir orðið reyni að átta sig á því hvað sú manneskja sem talaði meinti í raun.

Því bið ég þig, lesandi góður, að hugsa málið næst þegar þú talar um „hinsegin fólk“ eða „hinsegin málefni“ – og um leið lofa ég því sjálf að leitast við að gera slíkt hið sama. Ertu í raun og veru að hugsa um transfólk, tvíkynhneigða og intersex fólk, til dæmis, eða ertu fyrst og fremst að hugsa um homma og lesbíur? Ef hið síðarnefnda er rétt hvet ég þig að nota frekar orðin samkynhneigð, hommi eða lesbía, af því að þannig er hægt að draga úr ýmiss konar misskilningi. Þar að auki eru hommi og lesbía falleg og góð orð sem um að gera er að nota sem oftast – þar sem það á við. Síðast en ekki síst hvet ég þó ykkur öll – og mig sjálfa í leiðinni – til að leitast við að vera raunverulega víðsýn, lesa ykkur til og fagna hinsegin fjölbreytileika í öllum sínum regnbogans litum.

Já, og svo þarf að búa til íslenskt orð sem nær merkingu enska orðsins „inclusive“. Góðar stundir.

Hvað er hinsegin? Fyrri hluti

hinseginhinseginÁ undanförnum árum hefur hugtakið hinsegin orðið æ algengara í íslenskri samfélagsumræðu samhliða aukinni umræðu almennt um málefni samkynhneigðra, tví- og pankynhneigðra, transfólks, intersex fólks og annarra sem ekki falla að normum er varða kyn, kyngervi og kynverund. Á sama tíma og hinsegin hefur fest í sessi hefur hugtakið þó einnig verið gagnrýnt og ljóst er að merking þess er ekki sú sama í hugum allra.

Sú samantekt sem fylgir hér á eftir og í síðari hluta þessa pistils er tilraun til að skilja q logohugtakið hinsegin, uppruna þess, merkingu og notkun á síðustu áratugum. Markmiðið er ekki að komast að niðurstöðu um hver sé „rétt“ merking þess eða hvernig það „eigi“ að vera notað, heldur að velta upp ýmsum hliðum með þá von í brjósti að lesendur verði meðvitaðri um hugtakið og þá merkingu sem hvert og eitt okkar leggur í það.

Þessi pistill er að miklu leyti greining á orðræðu í fjölmiðlum sem er byggð á orðaleit á Hinsegin þema á bókasafni Seltjarnarnessvefnum Timarit.is. Slík rannsókn gefur ekki endilega fullkomna mynd af opinberri orðræðu þar sem ekki eru öll íslensk dagblöð og tímarit komin inn á Timarit.is og þar að auki er ekki víst að orðaleitin sé 100% skilvirk. Þessi samantekt er heldur ekki rannsókn á hinsegin samfélagi eða orðanotkun innan raða samtaka hinsegin fólks á Íslandi. Allir sem starfað hafa með slíkum samtökum vita að umræða í fjölmiðlum endurspeglar alls ekki alltaf þá umræðu sem fer fram í raun og veru eða þá stefnu sem félögin hafa mótað sér, því fjölmiðlar eru oftar en ekki mótaðir af gagnkynhneigðri hugsun og viðmiðum. Þess vegna getur verið að sú mynd sem hér er dregin upp af notkun orðsins hinsegin stingi í stúf við þann veruleika sem hinsegin fólk þekkir og ég biðst fyrirfram afsökunar á því. Til að öðlast dýpri skilning á því hvernig hinsegin samfélagið sjálft hefur notað hugtakið og hvaða afstöðu það hefur til þess þarf að gera allt annars konar og vandaðri rannsókn – og það er verðugt verkefni fyrir félagsvísindafólk.hin logo

Notkun og saga orðsins hinsegin á margt sameiginlegt með enska orðinu queer og pistill sem ég skrifaði í fyrra um queer  er því nokkurs konar formáli að því sem hér birtist.

Hvað segir orðabókin?

Samkvæmt Íslenskri orðabók þýðir orðið hinsegin ,öðruvísi‘ eða ,skrýtinn, undarlegur‘, ‘óviðeigandi, ótækur‘.  Ef leitað er að orðinu á vefnum Tímarit.is koma upp fjölmörg dæmi um slíka notkun á síðustu öld, það er að segja setningar á borð við „hann/hún er nú eitthvað hinsegin“ í merkingunni að viðkomandi sé ,skrýtin/n‘, ,óviðeigandi‘ eða hafi ,orðið sér til skammar‘. Orðið getur einnig verið atviksorð og er þá notað í setningum eins og „hann/hún sagði það svona hinsegin“ til að gefa til kynna að viðkomandi hafi sagt eitthvað óhugsað eða án þess að fara ofan í saumana á því. Þrátt fyrir að hið síðastnefnda sé ekki beinlínis niðrandi er ljóst að orðið hinsegin hefur í ofangreindu samhengi nær alltaf neikvætt merkingargildi.

Áhugavert er að í Íslenskri orðabók kemur einnig fram að hinsegin merki ,þunguð, ófrísk‘. Um það eru einnig nokkur dæmi á Tímarit.is, til dæmis í þýðingu Kristjáns Eldjárn á smásögunni „Jómfrúfæðingin“ eftir William Heinesen (Andvari 3. tbl. 1960):

Screen Shot 2013-11-07 at 15.36.10

Hin sautján ára gamla María í sögu Heinesens varð ófrísk utan hjónabands. Þótt það komi ekki fram í orðabókinni er nokkuð ljóst að í textadæmunum sem koma fram á Tímarit.is felur það að vera hinsegin ekki bara í sér að kona sé barnshafandi, heldur að barnið hafi komið undir í lausaleik, sem var litið alvarlegum augum.  Hinsegin virðist sem sagt einnig hafa neikvæða merkingu þegar um þungaða konu er að ræða.

Hinsegin kynverundkynvillingar lysa lifi sinu

Síðasta merking orðsins hinsegin sem Íslensk orðabók gefur upp er ,samkynhneigður‘. Dæmi um slíka notkun er að finna á Tímarit.is frá upphafi sjöunda áratugarins, svo sem í umfjöllun Alþýðublaðsins um leikritið „Heilög skúta kvenleikans“ í febrúar 1961 og í þýddri sögu eftir Maurice Zolotov í Morgunblaðinu 21. október sama ár. Í Fálkanum var enn fremur birt lausleg þýðing á umfjöllun þýsks vikublaðs í apríl 1966 undir fyrirsögninni „Kynvillingar lýsa lífi sínu“. Þar spyr þýskur blaðamaður einn viðmælenda sinna spurningar sem þýdd er virðulega á þennan hátt: „Hver teljið þér að sé frumorsök þess, að þér eruð „hinsegin“?“

Um 1970 virðist orðið í þessari merkingu vera komið í nokkuð almenna notkun í íslenskum fjölmiðlum. Yfirleitt er það notað um samkynhneigða karla frekar en konur en það má skýra með þeirri staðreynd að almennt var talað meira og opinskár um samkynhneigð karla en kvenna á þessum árum. Vart þarf að fjölyrða um að orð eins og hinsegin og kynvillingur voru hlaðin neikvæðri merkingu á sjöunda og áttunda áratugnum og oft notuð í neikvæðum og fordæmandi tilgangi. Þó ber einnig að nefna að margir samkynhneigðir notuðu hinsegin líka sín á milli á þessum tíma og tóku orðið þannig upp á sína arma og notuðu á jákvæðan (eða í það minnsta jákvæðari) hátt um sjálfa sig og aðra.

Hinsegin sögur

hinsegin_sogurEitt athyglisverðasta dæmið um notkun samkynhneigðra einstaklinga á orðinu hinsegin er smásagnasafnið Hinsegin sögur eftir Guðberg Bergsson, sem kom út árið 1984. Þessar sögur stuðuðu marga lesendur en í þeim fjallar Guðbergur um ýmis svið kynferðislífsins á opinskáan og óvenjulegan hátt. Ein sagan fjallar til dæmis um tvo menn sem eru tvítóla og með kynfærin á bringunni og nágrannarnir halda af þeim sökum að þeir séu í hanaslag þegar þeir stunda kynlíf. Aðrar sögur í bókinni fjalla til dæmis um Magnúsu sem fer að vaxa typpi, tvíkynhneigðan fíl sem fullnægir fólki með rananum og Öbbu litlu sem lætur (já, hún er gerandi í sögunni) bæði afa sinn og hundana á leikvellinum „stinga í kitlustaðinn“ sinn. Flestar eiga aðalpersónur smásagnanna það sameiginlegt að fá ánægju út úr kynlífinu og þær skammast sín ekki fyrir það. Því má segja að Hinsegin sögur séu óður til ó-gagnkynhneigðs og ó-venjulegs kynferðislífs, hvað sem lesendum kann að finnast um að kynlíf tveggja karla og kynferðisleg hegðun barns sé sett undir sama hatt.

Sögur Guðbergs eru hinsegin í miklu víðari skilningi en samkynhneigðum og segja má að notkun orðsins hinsegin í þessu samhengi feli í sér allar orðabókarmerkingarnar sem greint hefur verið frá hér að ofan, nema óléttu, því sögurnar eru margar sannarlega skrýtnar, undarlegar, ótækar og óviðeigandi.  Þorvaldur Kristinsson, sem kom að útgáfu bókarinnar, útskýrði þema bókarinnar á þennan hátt í viðtali í Helgarpóstinum í febrúar 1985:

„Að vera hinsegin, öðruvísi, utangarðs er eins konar samnefnari þessara sagna, held ég. Sumar persónurnar njóta þess að eflast við hvern hanaslaginn sem lífsnautnin færir þeim. Aðrar standa ekki undir því að vera hinsegin, leysast upp og láta furðufugla gleypa sig með húð og hári. Svo er þarna fólk eins og Anna leikkonar sem stynur undir því að hafa ekki tekist að verða nógu hinsegin í list sinni. Hún hefur aldrei ratað á ögrunina, heldur látið stofnunina éta sig með húð og hári og sætt sig við ríkjandi heimsmynd í listsköpun sinni.“

Screen Shot 2013-11-07 at 17.04.31

Hér er hinsegin því notað í merkingunni ,utangarðs‘ og ,ögrandi‘ – eða ,það sem ögrar ríkjandi samfélagsviðmiðum‘ – og það er ekki endilega bundið við kynverund þótt tengingin þar á milli sé sterk. Þorvaldur og Guðbergur virðast nota hinsegin í mjög svipaðri merkingu og enska orðið queer sem þó varð ekki útbreitt í sinni róttæku merkingu (,það sem ekki samræmist gagnkynhneigðum viðmiðum‘) í Bandaríkjunum fyrr en nokkrum árum síðar. Hvort þeir félagar höfðu enska orðið í huga skal ósagt látið en líkindin með hinsegin og queer í þessu samhengi eru skýr hvað sem því líður.

Forsíða dagskrárrits Hinsegin daga 2014


Hinsegin á 21. öld

Á árunum í kringum aldamótin 2000 má segja að sprenging hafi orðið í notkun orðsins hinsegin í íslenskum fjölmiðlum og í íslenskri samfélagsumræðu almennt. Sem dæmi má nefna að samkvæmt orðaleit sem framkvæmd var í apríl 2014 kemur orðið 290 sinnum fyrir á Timarit.is frá 1990–1999 en 1147 sinnum frá 2000–2009. Vafalaust liggja margar ástæður þar að baki en tvö atriði skipta meginmáli að mínu mati. Annars vegar var umræða um samkynhneigð og hinsegin málefni orðin hispurslausari og jákvæðari á fyrsta áratug nýrrar aldar en áður. Hins vegar fékk baráttu- og sýnileikahátíð hinsegin fólks, sem hafði áður verið haldin undir öðrum formerkjum, heitið Hinsegin dagar í Reykjavík árið 1999 en hátíðin hlaut strax býsna mikla fjölmiðlaathygli sem hefur aukist æ síðan.

Frá aldamótum hefur notkun orðsins hinsegin þróast hratt og í ýmsar áttir og ljóst er að það er notað á margvíslegan hátt. Í fyrsta lagi er hinsegin enn notað í merkingunni ,öðruvísi‘ og ennþá er talað um að eitthvað sé „svona eða hinsegin“. Í öðru lagi er orðið er notað sem akademískt hugtak (sbr. hinseginfræði) og í þriðja lagi um ákveðna sjálfsvitund (e. identity) sem þjónar lykilhlutverki í pólitískri réttindabaráttu. Um þetta verður fjallað í síðari hluta þessa pistils.