Andvökulestur – Við Jóhanna

við jóhanna

Í upphafi vikunnar var ég andvaka langt fram á nótt. Það gerist sem betur fer eiginlega aldrei (líklega hef ég drukkið of mikið koffín) og mikið fjandi er það leiðinlegt. Í þetta skiptið var ég þó heppin, því á náttborðinu lá ósnert bók sem við Helga fengum í innflutningsgjöf frá íslenskum gestum. Ég náði að lesa hana alla áður en svefninn sótti á mig en þá tóku við draumar um efni hennar sem entust þar til vekjaraklukkan hringdi.

Bókin var Við Jóhanna eftir hina ágætu kunningjakonu mína Jónínu Leósdóttur – bók sem margir höfðu beðið eftir með óþreyju. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hún ætti eftir að verða langsöluhæsta bók Jónínu og þýdd á mörg tungumál. Raunar spái ég því að þessi bók eigi eftir að verða ein víðlesnasta íslenska bókin á alþjóðavettvangi á næstu árum og áratugum – allavega ef útgefandinn stendur sig. Ástæðan er sú að þótt í grunninn sé „bara“ um að ræða ástarsögu tveggja Reykvíkinga er efnið sögulegt þótt sumum Íslendingum þyki lítið til þess koma, því bókin fjallar um fyrstu samkynhneigðu og kvenkyns forsætisráðherrahjón sögunnar.

Jónína er þrælfínn rithöfundur en í þetta skiptið er það ekki frásagnarstíll eða fagurfræðilegar hliðar bókarinnar sem laða að lesendur heldur  fyrst og fremst efnið: sagan af því hvernig tvær konur urðu ástfangnar hvor af annarri en þurftu að halda sambandinu meira og minna leyndu í áratugi, að hluta til af því að önnur þeirra var stjórnmálakona og ráðherra en þó fyrst og fremst vegna þess að þær voru báðar konur. Þær eru núna árið 2013 í fyrsta skipti að upplifa það sem flest gagnkynhneigð pör – þjóðþekkt eður ei – hafa ávallt getað gert án þess að hugsa sig um: að láta taka myndir af sér saman og tala hvor um aðra opinberlega. Sagan endar því vel, sem betur fer, og ég vona að þær spúsur eigi mörg hamingjurík og frjálsleg ár fram undan.

Eftir lesturinn sitja í huga mér ýmiss konar vangaveltur um bakgrunn sögunnar um Jóhönnu og Jónínu, það er að segja þær lagalegu, samfélags- og viðhorfsbreytingar sem hafa orðið á Íslandi og víða á Vesturlöndum á síðustu þrjátíu árum. Ég fyllist stundum vanmætti og hálfgerðri skömm þegar ég hugsa um þessa sögu, ekki af því að hún sé skammarleg heldur af því að ég tók ekki þátt í henni. Ég tilheyri kynslóð sem ég kalla í bili þúsaldarkynslóðina, það er að segja hvítu samkynhneigðu millistéttarfólki sem kom út úr skápnum eftir að mannréttindabaráttan var komin af stað, hefur notið góðs af baráttu fyrri kynslóða og ekki þurft að berjast fyrir eigin tilverurétti á sama hátt og fólk af kynslóð Jónínu og Jóhönnu.

Eitt af því sem gerðist á síðustu áratugum liðinnar aldar er að hugrakkt og atorkusamt fólk stóð upp, hristi af sér mótlæti og fordóma og krafðist þess að samkynhneigðir fengju lagaleg réttindi og yrðu viðurkenndir sem fullgildir þjóðfélagsþegnar. Við höfum fengið að kynnast sögu sumra úr þessum hópi, til dæmis ævisögum Harðar Torfasonar og Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Tabú og Ég skal vera Grýla, sem komu út árið 2008. Einnig má finna viðtöl við Þorvald Kristinsson og fleiri sem birst hafa í dagblöðum og tímaritum á Timarit.is. Án þessa fólks og allra hinna sem börðust hefði lítið gerst, það er nokkuð ljóst.

Bók Jónínu og Jóhönnu er ólík þessum ævisögum að því leyti að hún er saga þeirra sem börðust ekki á opinberum vettvangi heldur fyrst og fremst heima hjá sér – við sjálfa sig og eigin tilfinningar, fjölskyldu og nánasta samfélagið. Fólks sem aldrei hefði dottið í hug að flagga kynhneigð sinni opinberlega, hvað þá að berjast fyrir réttindum, því það hafði nóg að gera við að halda höfði í einkalífinu og lifa í sæmilegri sátt við sjálft sig og aðra. Þessi þögli hópur hefur sjaldan sagt sína sögu á prenti á Íslandi enn sem komið er en saga þeirra er þó síst ómerkilegri en baráttufólksins. Að mínu mati er þessi þáttur bókar Jónínu og Jóhönnu einn sá allra áhugaverðasti og vonandi koma fleiri slíkar sögur í bókabúðir á næstu árum.

Jónína nefnir í bókinni að eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra hafi þær fundið fyrir pressu frá sumum Íslendingum að Jóhanna tæki afstöðu og beitti sér fyrir réttindum hinsegin fólks. Að það væri eins konar skylda hennar sem lesbíu í þessari valdamiklu stöðu. Mig minnir að ég hafi líka hugsað á þennan veg einhvern tímann; að Jóhanna ætti nú að sýna dug og hætta að „svíkja málstaðinn“ með þögninni. Þegar bók Jónínu og Jóhönnu er lesin er ekki annað hægt en að skammast sín fyrir slíkar hugsanir. Það er hrokafull krafa af lesbíu á þrítugsaldri að ætlast til þess að tæplega sjötug kona sem er að reyna að stýra heilu ríkisbatteríi standi upp á opinberum vettvangi í fyrsta skipti á ævinni, segi „ég er lesbía“ og gerist fyrirmynd sem slík. Hér rekast á tvær kynslóðir; þúsaldarkynslóðin sem hefur fengið að blómstra eftir „mannréttindabyltinguna“ í byrjun 21. aldar og sú sem þurfti að glíma við allt annan veruleika í áratugi fyrir þann tíma. Ég vil ekki kalla þá fyrrnefndu forréttindakynslóð, því því fylgja svo sannarlega engin forréttindi að vera hinsegin, hvorki í dag né áður fyrr. Mín kynslóð af samkynhneigðu fólki býr engu að síður við þægindi og öryggi sem gerir okkur kleift að vera hrokafull og dómhörð ef við pössum okkur ekki.

Mest sláandi er þó að hugsa um hversu hratt þessar laga-, samfélags- og viðhorfsbreytingar hafa orðið. Þrjátíu ár eru stuttur tími og enginn getur verið viss um að þróunin haldi áfram á sömu braut. Það þarf ekki annað en að horfa til meginlands Evrópu til að sjá að refsilöggjöf er víða að verða harðari og opinber viðhorf fordómafyllri í garð samkynhneigðra. Á Íslandi vaða fordómafullir sleggjudómar um hinsegin fólk uppi í athugasemdakerfum og tvíkynhneigðarfóbía og transfóbía eru alvarleg samfélagsmein. Þar að auki má nefna að hatursorðræðan sem viðgengst gagnvart múslímum er afar óþægileg. Hver veit hvað mun gerast á næstu þrjátíu árum? Enginn.

Við sem tilheyrum þúsaldarkynslóðinni höfum efni á að vera þakklát en ekki hrokafull. Við búum ekki við forréttindi heldur mannréttindi og þessi mannréttindi duttu ekki af himnum ofan. Fyrir þeim var barist og það er okkar að berjast fyrir því að þeim verði við haldið. Fyrir svo utan alla baráttuna sem eftir er, sér í lagi hvað varðar réttindi annarra hópa sem allt of oft gleymast – til dæmis tvíkynhneigðra og transfólks – en einnig samfélagsleg viðhorf, fordóma og ýmiss konar mismunun sem ekki stríðir gegn lögum.

Þótt saga Jónínu og Jóhönnu sé persónuleg ástarsaga er hún líka innlegg í sögu hinsegin fólks á Íslandi og á alþjóðavísu og afar mikilvæg sem slík. Sé hún lesin með þar til gerðum gleraugum má þar að auki sjá í henni áminningu til yngri kynslóða um að halda vel á spilunum og vera á verði, passa mannréttindin sem í gildi eru og berjast fyrir þeim sem ekki eru í höfn, og vinna að auknu jafnrétti og minni fordómum í samfélaginu. Ég óska engum þess að þurfa að fela ást sína fyrir umheiminum í eins og Jónína og Jóhanna en ég er þeim þakklát fyrir að hafa deilt sinni ljúfsáru sögu með okkur hinum.

Hvað er queer?

Queer is by definition whatever is at odds with the normal, the legitimate, the dominant. There is nothing in particular to which it necessarily refers. It is an identity without an essence. (David M. Halperin, Saint Foucault: Towards a Gay Hagiography (1995), bls. 62)

Enska orðið queer á sér langa sögu, það er notað í ólíkum tilgangi og merking þess er oft og tíðum fljótandi. Í þessum pistli verður ekki gerð tilraun til að skilgreina hugtakið á tæmandi hátt og þótt ég vísi til heimilda er þessi umfjöllun ekki sérlega fræðileg. Ég stikla hér á stóru um notkun orðsins queer fyrst og fremst í þeim tilgangi að leggja grunninn fyrir umfjöllun og vangaveltur um íslenska orðið hinsegin, sem á síðustu árum hefur oft verið notað sem þýðing á queer. Áhugasamir lesendur geta nálgast ágætt yfirlit af svipuðum toga (þó mun ítarlegra og fræðilegra) eftir Jan Wickman á veftímaritinu Trickster.

Ég bendi á að ég hef útbúið hugtakalista sem aðgengilegur er á þessari síðu þar sem ég útskýri mörg af þeim hugtökum sem ég nefni og nota hér og mun styðjast við í framtíðinni. Ég fagna öllum tillögum að nýjum og betri þýðingum á hugtökum, sem og ábendingum um rangfærslur og annað slíkt.

Mynd fengin af síðunni http://palmwinenyc.wordpress.com/2012/05/26/hello-world.
Mynd fengin af síðunni http://palmwinenyc.wordpress.com/2012/05/26/hello-world.

Þróun orðsins á 20. öld

Queer getur verið lýsingarorð, nafnorð eða sagnorð. Sem lýsingarorð merkir queer samkvæmt Collins orðabókinni ,differing from the normal or usual in a way regarded as odd or strange‘. Einnig getur það merkt ,suspicious, dubious‘ og ,faint, queasy‘, og loks ,homosexual‘, ,odd or unbalanced mentally‘ eða ,worthless‘. Sögnin to queer merkir ,to spoil or thwart‘ eða ,to put in a difficult or dangerous position‘. Loks ber að nefna nafnorðið a queer sem sker sig frá hinum að því leyti að það er samkvæmt orðabókinni fyrst og fremst notað í merkingunni ,a homosexual, usually a male‘.

Queer á sem sagt upphaflega almennt við um það sem ekki er venjulegt og þá fyrst og fremst í niðrandi eða neikvæðri merkingu. Þessi notkun orðsins er enn við lýði í dag. Í kringum aldamótin 1900 fór að bera á því að orðið væri notað sem skammaryrði um samkynhneigða og sú merking hélst út alla tuttugustu öldina og er sprelllifandi í dag.

Um 1990 urðu nokkuð merkileg tímamót í sögu orðsins því þá tóku aðgerðasinnar í hópi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks queer upp á sína arma, sneru merkingu þess sér í vil og hófu að berjast fyrir mann- og samfélagslegum réttindum undir merkjum þess. Einna frægust slíkra hópa eru líklega Queer Nation, félagasamtök aðgerðasinna í Bandaríkjunum sem gerðu meðal annars slagorðið „We’re here, we’re queer, get used to it!“ frægt í upphafi tíunda áratugarins. Á síðustu tveimur áratugum hefur þessi notkun orðsins í jákvæðri og/eða pólitískri merkingu innan queer samfélagsins aukist jafnt og þétt og það er þessi merking sem fyrst og fremst er lögð til grundvallar hér.

Hin róttæka merking

Sú merking orðsins queer sem þróaðist í kringum aktívistahreyfingarnar undir lok síðustu aldar er mun róttækari en sú sem felst í orðum á borð við gaylesbianhomosexual,  bi, transsexual og svo framvegis. Queer er ekki einfaldlega orð yfir homma eða lesbíur heldur er það notað til að mótmæla og brjóta niður skilgreiningar og flokkunarkerfi samfélagsins hvað varðar kyngervi og kynhneigð. Queer er oft sett í samhengi við hugtakið heteronormativity eða gagnkynhneigð viðmið. Í gagnkynhneigðum viðmiðum felst að samfélagið gerir ekki aðeins almennt ráð fyrir því að einstaklingur sé gagnkynhneigður og annaðhvort karl eða kona, heldur einnig að viðkomandi bindi tryggð við einn maka, eignist börn og hegði sér í samræmi við hefðbundin kynhlutverk. Hugtakið queer vinnur gegn þessu kerfi og leitast við að brjóta niður hefðbundin gagnkynhneigðar- og kynjanorm. Þannig virkar queer stuðandi á og hristir upp í tvíhyggju- og merkimiðakerfinu sem er svo ríkjandi í vestrænum nútímasamfélögum, þar sem öll börn eru kyngreind við fæðingu (og raunar oft löngu áður), sett í hlutverk stelpu og stráka og sjálfvirkt alin upp sem „góðir“ gagnkynhneigðir einstaklingar, þar til annað kemur í ljós.

Í slagorði eins og „We’re here, we’re queer“ felst ekki endilega krafa um að barist sé fyrir réttindum homma og lesbía heldur fyrst og fremst að tilvera þeirra sem ekki eru „venjulegir“ gagnkynhneigðir og sís þegnar sé viðurkennd. Innan queer rammans rúmast ýmis önnur afbrigði kynverundar og kynhneigðar en gagn- og samkynhneigð, svo sem tvíkynhneigð, pankynhneigð og ókynhneigðQueer getur einnig átt við óhefðbundin sambandsform á borð við polyamory (þýðing óskast!) og þá ákvörðun samkynja (og jafnvel gagnkynja – en það er umdeilt) para að giftast ekki og eignast ekki börn þótt sá möguleiki sé lagalega, tæknilega og líffræðilega í boði. Enn fremur vísar queer til trans*fólks og intersex einstaklinga, það er að segja fólks sem fellur ekki að gagnkynhneigðum viðmiðum hvað varðar líkamlegt kyn og/eða kyngervi.

Í stuttu máli sagt: lýsingarorðið queer getur í víðum skilningi náð yfir öll afbrigði líkamlegs kyns, kyngervis, kynhneigðar og kynverundar sem ekki falla að gagnkynhneigðum viðmiðum. Í þessu samhengi er sagnorðið to queer enn fremur oft notað í samsetningum eins og „to queer something up“, sem sagt um þá athöfn að hrista upp í og ögra gagnhneigðum viðmiðum og normum. Nafnorðið queer er þónokkuð umdeildara fyrirbæri eins og ég vík að á eftir.

Queer theory

Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar varð til ný fræðigrein, queer studies, og teoría, queer theorysem hvort tveggja þróaðist út frá queer aktívisma, femínisma, homma- og lesbíufræðum (e. gay and lesbian studies) og póststrúktúralisma. Teorían byggði í upphafi einkum á skrifum tveggja fræðikvenna, Eve Kosofsky Sedgwick og Judith Butler. Ein áhrifamesta greinin sem skrifuð var á upphafsárum fræðigreinarinnar er þó grein Michaels Warner, „Fear of a Queer Planet“, sem birtist í Social Text árið 1991. Þar kynnir Warner til sögunnar hugtökin heteronormativity og queer theory og krefst þess að félagsfræðin endurskoði aðferðafræði sína þegar kemur að rannsóknum á samkynhneigð. Hann segir meðal annars:

Social theory, moreover, must begin to do more than occasionally acknowledge the gay movement because so much of heterosexual privilege lies in heterosexual culture’s exclusive ability to interpret itself as society. Even when coupled with a toleration of minority sexualities, heteronormativity has a totalizing tendency that can only be overcome by actively imagining a necessarily and desirably queer world(bls. 7, undirstr. mín)

Þessi krafa um að fólk sem vinnur að rannsóknum á sviði kyngervis og kynverundar leitist við gagnrýna ríkjandi skipulag og ímynda sér heim þar sem gagnkynhneigð viðmið eru ekki ríkjandi – samfélag þar sem ekki er gert ráð fyrir tvíhyggju, fyrirfram ákveðnum kynhlutverkum og svo framvegis – hefur knúið queer studies áfram á síðustu 25 árum og gert fagið að þverfaglegri fræðigrein sem rannsakar samfélög, bókmenntir, sögu, stjórnmál og svo mætti lengi telja. Queer aðgerðasinnar eru enn fremur undir miklum áhrifum frá queer theory og queer studies og öfugt.

Getur queer verið nafnorð eða sjálfsvitundarhugtak?

Í hinni nýju kyn- og kynverundarpólitísku merkingu er queer oft notað sem nafnorð og verður þá óhjákvæmilega um leið einhvers konar hugtak sem vísar til sjálfsvitundar (e. identity) – það er að segja, hluti af sjálfsmynd einstaklings. Slík notkun, það er að segja að einhver sé a queer, hefur verið gagnrýnd fyrir að samrýmast ekki róttækni hugtaksins, því í queer felst einmitt að festa ekki niður merkingu og skilgreina ekki sjálfsvitund einstaklinga. Eins og fram kom í tilvitnuninni hér efst í færslunni heldur David Halperin því fram að queer sé „an identity without an essence“ en Annamarie Jagose segir aftur á móti að queer sé „less an identity than a critique of identity“. Hver sem munurinn er á þessum tveimur fullyrðingum er ljóst að bæði líta Halperin og Jagose svo á að queer geti ekki verið sjálfsvitundarhugtak í sama skilningi og til dæmis orðið gay.

Getur queer verið samheiti LGBT?

Queer er á síðari árum einnig oftar en ekki notað sem regnhlífarhugtak í svipuðum tilgangi og LGBT (lesbian, gay, bisexual, transgender) eða aðrar útgáfur af skammstafanarunum, svo sem QUILTBAG (queer, unidentified, intersex, lesbian, transgender, bisexual, asexual, gay). Þessi orðnotkun hefur verið gagnrýnd á svipuðum forsendum og notkun nafnorðsins queer, það er fyrir að gera lítið úr róttækni orðsins og gefa í skyn að hægt sé að skilgreina það og festa niður. Með því að nota queer sem samheiti LGBT, til dæmis, er búið að skilgreina merkingu þess á þann veg að það nái yfir homma, lesbíur, tvíkynhneigða og transfólk, sem er mun þrengri merking en sú sem áður hefur verið útskýrð. QUILTBAG er mun víðara hugtak en engu að síður ekki óumdeilt.

Þegar queer er notað sem regnhlífarhugtak er það oft talið ná yfir allan skalann og rúma alla sem ekki samræmast gagnkynhneigðum normum. Það er göfugt markmið en raunin er því miður oft ekki sú. Gallinn við regnhlífarhugtök er nefnilega sá að þótt þau eigi að ná yfir vítt svið er raunin oft sú að þau skýla fyrst og fremst forréttindahópum á meðan jaðarhópar gleymast. Á undanförnum árum hefur til dæmis verið bent á að þegar queer sé komið í almenna notkun sem regnhlífarhugtak fari það oft að nálgast gay að merkingu og eigi þá fyrst og fremst við um hvítt, samkynhneigt (millistéttar)fólk á meðan til dæmis tvíkynhneigðir, transfólk, fólk af lægri stéttum og fólk af öðrum kynþáttum en hvítum gleymist. Þá er queer búið að missa hið raunverulega regnhlífarhlutverk sitt, svo ekki sé minnst á róttæku merkinguna.

Um þetta má meðal annars lesa í kafla Nikki Sullivan, „Queer: A Question of Being or Doing?“ í bókinni A Critical Introduction to Queer Theory (2000). Carolyn Dinshaw nefnir þessa þróun einnig í yfirlitsgrein um sögu tímaritsins GLQ árið 2006 og segir:

The fortunes of the term have waxed and waned: the early-twentieth-century American use of queer was supplanted in the World War II era by the more progressive term gay. In the 1990s gay was viewed as conservative and assimilationist; queer suggested a more confrontational, radical politics. Now, as evinced by its use on sitcoms and reality TV, queer is rapidly losing its edge and becoming a bland synonym for gay, indexing mainstream liberal values and lifestyle consumer culture. (bls. 8)

Um notkun orðsins queer í þessu samhengi eru skiptar skoðanir. Sumum finnst queer henta vel sem regnhlífarhugtak á meðan aðrir kjósa LGBT eða eitthvað allt annað. Um slíkar vangaveltur má til dæmis lesa hér.

Fljótandi og síbreytilegt hugtak

Ljóst er á því sem rakið hefur verið hér að ofan að ekki er til nein ein algild skilgreining á því hvað er queer og hvað ekki. Hugtakið er fljótandi og síbreytilegt og á að vera það – í því er róttæknin fólgin. Hinir ýmsu hópar og einstaklingar hafa sína skoðun á því í hvaða tilgangi og merkingu orðið er notað og líklegt er að sú þróun haldi áfram á næstu árum og áratugum. Ekki má heldur gleyma því að queer er enn notað sem skammaryrði í þeim tilgangi að gera lítið úr fólki og sú barátta stendur því enn. Einnig má velta því fyrir sér hvað verði um queer ef samfélagið hættir að vera markað og stýrt af gagnkynhneigðum viðmiðum. Sú hugmynd er þó langsótt og ekki þarf að hafa áhyggjur af því í fyrirsjáanlegri framtíð. Síðast en ekki síst má velta fyrir sér hvort þörf sé á að finna nýtt hugtak sem getur tekið við róttæknihlutverkinu ef queer staðnar um of. Allt eru þetta vangaveltur sem má lesa um á óteljandi mörgum spjallþráðum á netinu og ýmsum greinum sem ég tiltek ekki hér heldur leyfi lesendum að gúgla sig áfram sjálfir.

Ég lýk þessari umfjöllun um orðið queer með tilvitnun í Judith Butler sem benti strax árið 1993 á nauðsyn þess að halda queer hugtakinu lifandi og leyfa því ekki að staðna, sem og að hafa augun opin fyrir nýju hugtaki ef þörf krefur. Í kafla sem ber heitið „Critically Queer“ (í Bodies that Matter) segir hún:

If the term „queer“ is to be a site of collective contestation, the point of departure for a set of historical reflections and futural imaginings, it will have to remain that which it is, in the present, never fully owned, but always and only redeployed, twisted, queered from a prior usage and in the direction of urgent and expanding political purposes. This also means that it will doubtless have to be yielded in favor of terms that do that political work more effectively. Such a yielding may well become necessary in order to accommodate – without domesticating – democratizing contestations that have and will redraw the contours of the movement in ways that can never be fully anticipated in advance. (bls. 228)

Ný síða – nýtt verkefni

Kæru lesendur

Hér er ég búin að setja upp vefsíðu fyrir hina akademísku hlið mína – þá Ástu sem situr gjarnan við skrifborð (eða eldhúsborð) og reytir hár sitt yfir skrifum eða sýpur kaffi yfir lestri bóka. Á vefnum má nú þegar finna praktísk atriði eins og ferilskrá og lista yfir greinar og fyrirlestra sem ég soðið saman. Einnig setti ég inn nokkrar tækifærisræður sem ég hef haldið, þótt þær séu alls ekki fræðilegar og komi bókmenntum jafnvel ekkert við.

Meginmarkmiðið með þessum vef er þó að koma á fót upplýsingasíðu um íslenskar hinsegin bókmenntir, eða bókmenntir sem fjalla um þær birtingarmyndir mannlífsins sem setja má undir regnhlífarhugtakið hinsegin*. Slíkar bókmenntir hafa lítið verið rannsakaðar í íslensku samhengi og tiltölulegar fáar greinar hafa verið skrifaðar um efnið – með nokkrum góðum undantekningum þó. Á næstu mánuðum hyggst ég koma upp á þessum vef gagnabanka um þær rannsóknir sem hafa verið gerðar. Einnig mun ég skrifa pistla um bækur, sem og hinsegin fræði (e. queer theory) og annað sem tengist efninu.

Þar sem ég er önnum kafin við að vinna að doktorsritgerð býst ég síður við að vefurinn vaxi mjög hratt og bið því lesendur að sýna þolinmæði. Þangað til getið þið dundað ykkur við að skoða aðra heimasíðu sem ég kom upp nýlega, nefnilega vef um skáldkonuna Jakobínu Sigurðardóttur.

 

* Íslenska hugtakið hinsegin er yfirleitt notað í svipaðri merkingu og skammstafanasúpur á borð við LGBTQIA (lesbian, gay, bi, trans, queer, intersex, asexual) eru notaðar í enskumælandi samhengi, það er að segja sem regnhlífarhugtak yfir samkynhneigð, tvíkynhneigð, transkynvitund, intersex-líkama og „ei-kynhneigð“. Allt eru þetta orð sem þarfnast nánari útskýringar en það verður þó látið liggja milli hluta hér – í bili. Einnig mætti segja að orðið hinsegin vísi almennt til alls þess sem fellur ekki að því sem telst „venjuleg“ kynhneigð eða „venjuleg“ kynvitund í hverju samfélagi á hverjum tíma.

Enska hugtakið queer á sér dálítið aðra sögu en íslenska orðið hinsegin og yfirleitt eru þessi tvö orð ekki notuð í sömu merkingu. Þó er queer stundum notað sem regnhlífarhugtak en sú notkun er umdeild. Pistill um þessi hugtök og notkun þeirra er væntanlegur inn á þessa síðu innan skamms.