Hugtakalisti

Hér má finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum og þýðingum sem notaðar eru á þessari síðu. Ég tek tillögum að nýjum og betri þýðingum fagnandi, sem og leiðréttingum á skilgreiningum.

Kyn og kyngervi. Á íslensku hefur skapast hefð fyrir því að þegar greina þarf á milli þess sem á ensku er kallað sex og gender er talað um kyn (e. sex) og kyngervi (e. gender). Kyn er í því samhengi fyrst og fremst líffræðilegt kyn en kyngervi er notað um „þá menningarbundnu merkingu sem samfélagið leggur í hið líffræðilega kyn, það er væntingar um karlmennsku og kvenleika. Þannig hefur hvert samfélag ákveðnar væntingar um hvað það þýði að vera karl eða kona, um verksvið og skyldur kynjanna og það hvernig konur og karlar eigi að líta út og hegða sér.“ (Þorgerður Þorvaldsdóttir, svar á Vísindavefnum, 3. nóvember 2000)

Í ensku er nokkuð skýr munur á orðunum sex og gender og merkingu þeirra. Í íslensku háttar aftur á móti svo til að orðið kyn getur í rauninni bæði átt við líkamlegt og menningarlegt kyn og íslenskir málhafar eru ekki sérlega vanir að gera greinarmun þar á milli. Það hefur bæði kosti og galla sem ekki verður farið út í hér. Í umfjöllun minni á þessari síðu kýs ég að nota einfaldlega orðið kyn ef ekki er nauðsynlegt samhengisins vegna að greina á milli líkamlegs og menningarlegs kyns. Einnig tala ég um „líffræðilegt kyn“ ef um sex er að ræða til að taka af allan vafa.

Kynvitund er sú þýðing sem notuð hefur verið á enska hugtakinu gender identity á undanförnum árum, sér í lagi í tengslum við baráttu fyrir bættri réttarstöðu transfólks (Sjá umsögn Samtakanna ’78 frá 2011). Einnig notar kynfræðingurinn Jóna Ingibjörg Jónsdóttir þessa þýðingu í nýlegum skrifum (sjá til dæmis hér) þótt hún hafi áður notað orðið kynímynd (sjá hér).

Með kynvitund er þá átt við „djúpstæða innri tilfinningu sérhverrar manneskju og einstaklingsbundna upplifun hennar á kyni, sem getur samsvarað eða verið andstæð því kyni sem hún var talin hafa við fæðingu, þar með talin persónuleg upplifun á líkamanum (sem – ef það er gert af frjálsum vilja – gæti falið í sér breytingar á líkamlegu útliti, eða hlutverki með aðstoð lyfja, skurðaðgerðum eða á annan hátt ) og aðrar tjáningar kyns, þar með talinn klæðaburður, málfar og látbragð.“ (Yogacarta Principles, bls. 6; þýðing: Samtökin ’78)

Kynverund er notuð sem þýðing á sexuality, það er yfir kynferðislíf og -kenndir almennt – þá heildarupplifun að vera kynvera. (Sjá umfjöllun Jónu Ingibjargar Jónsdóttur hér).

Kynhneigð er notað yfir það sem á ensku nefnist sexual orientation. Kynhneigð vísar til þess hvernig einstaklingar mynda tilfinningaleg og/eða kynferðisleg tengsl út frá kyni og kyngervi hins aðilans. (Sjá umfjöllun Jónu Ingibjargar Jónsdóttur hér).

Trans er orð sem notað hefur verið í íslensku sem lýsingarorð, sbr. að vera transtrans maður, trans kona, trans fólk o.s.frv. Trans eða transgender er regnhlífarhugtak sem nær yfir ýmiss konar kynvitund og kyngervi sem ekki samræmist því líffræðilega kyni sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu – eða fyrirfram skilgreindu líffræðilegu kyni yfirhöfuð. Undir trans regnhlífinni rúmast transsexúal fólk, kynsegin (e. non-binary) fólk og fólk sem yfirleitt fellur á einhvern hátt á milli eða utan hinna hefðbundnu skilgreininga á konum og körlum. Frekari upplýsingar má til dæmis fá í bæklingi frá Trans Íslandi og á vefsíðunni TransWhat?

Sís (e. cis) er líkt og trans lýsingarorð en er notað um þau tilfelli þar sem kynvitund einstaklings fellur að og samræmist því líffræðilega kyni sem viðkomandi var úthlutað við fæðingu. Sís karl er þannig karlmaður sem upplifir sig sem karlmann og fæddist í karllíkama. (Sjá hér). Frekar lítil reynsla er komin á notkun þessarar þýðingar í íslensku en reynst hefur erfitt að finna betra orð sem nær merkingu enska orðsins. Allar tillögur eru vel þegnar.

Intersex er hugtak (óþýtt) sem, eins og kemur fram á heimasíðu samtakanna Intersex Ísland: „nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; sem eru sambland af karl- og kvenkyns; eða sem eru hvorki karl- né kvenkyns. Margar formgerðir of intersex eru til. Um er að ræða skala eða regnhlífarhugtak frekar en einn eiginlegan flokk. Sumar algengar intersex-formgerðir eru greindar á meðgöngu. Intersex breytileiki getur verið sjáanlegur við fæðingu. Sumir intersex eiginleikar koma í ljós við kynþroska, þegar reynt er að geta barn, eða fyrir einskæra tilviljun.“

Gagnkynhneigð viðmið (e. heteronormativity). Prófaðar hafa verið nokkrar íslenskar þýðingar á þessu ágæta hugtaki, heteronormativity, eins og Jón Ingvar Kjaran og Ingólfur Jóhannesson rekja í grein sem birtist í Ráðstefnuriti Netlu árið 2010. Gagnkynhneigt forræði og gagnkynhneigt regluveldi eru ágætar þýðingar og nýtast mörgum vel. Gagnkynhneigðarhyggja er líka gott orð en hefur verið notað sem þýðing á heterosexism. Á þessari síðu hef ég kosið að fylgja Jóni Ingvari og Ingólfi og nota orðið gagnkynhneigð viðmið – í bili að minnsta kosti.

Í gagnkynhneigðum viðmiðum felst að almennt er gert ráð fyrir því að einstaklingur sé gagnkynhneigður og annaðhvort karl eða kona. Einnig er reiknað með að viðkomandi bindi tryggð við einn maka, eignist börn og hegði sér í samræmi við hefðbundin kynhlutverk. Þessi viðmið eru ekki persónulegar skoðanir einstaklinga heldur grundvallarviðmið sem eru ríkjandi í samfélaginu og innbyggð í stofnanir þess. Í samfélagi eða samhengi þar sem gagnkynhneigð viðmið eru ríkjandi er allt sem fellur utan þessara viðmiða í besta falli óeðlilegt og skrýtið – í versta falli óæskilegt, óásættanlegt og jafnvel réttlætanlegt að ráðast á það eða drepa.

Auglýsingar

2 athugasemdir á “Hugtakalisti

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s