Kynvillta bókmenntahornið rumskar

Á fimmtudaginn í síðustu viku rumskaði Kynvillta bókmenntahornið eftir langan og væran blund þar sem það lá fram á borð á bar nokkrum og slefaði ofan í glasamottuna. Rumskaði er reyndar ekki rétta orðið; það hrökk skyndilega upp með andfælum og þurrkaði sleftaumana í snatri úr munnvikunum. Ástæðan? Jú, kynngimagnað upplestrarkvöld hjá forlaginu Partusi.

wakeup
Mynd: Matthias Weinberger (Flickr.com)

Partus er stærsti útgefandi ljóðabóka á þessu ári, skilst mér; vaxandi og metnaðarfullt forlag sem einbeitir sér að verkum eftir upprennandi höfunda og hugsuði. Á þessu kvöldi var lesið upp úr sjö ljóðabókum, þar af tveimur þýðingum, og af þessum sjö upplestrum voru þrír úr verkum sem fjölluðu um hómóerótík, samkynja kynlíf eða kynusla: Elías Knörr las eigin ljóð, Þorsteinn Vilhjálmsson las þýðingar sínar á ljóðum forngrískra skálda, þar á meðal áður óþýddu ljóði Saffóar, og Kristín Svava Tómasdóttir las brot úr þýðingu sinni á ljóði eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera. Það mátti heyra eyru mín þenjast út.

 

Það er gömul saga og ný að hinsegin veruleiki sé falinn, eða í það minnsta ekki valinn til birtingar, í bókmenntum nema í undantekningatilvikum. Á Íslandi er oft talað um að bækur sem fjalla um hinsegin veruleika séu nánast teljanlegar á fingrum annarrar handar fram til 1990. Það er reyndar ekki alveg svo slæmt en engu að síður verður að viðurkennast að hinsegin persónur eru ekki sérlega margar eða áberandi í íslenskum bókmenntum. Eða hvað? Að því ég best veit hafa ekki verið gerðar neinar kannanir eða rannsóknir á því hvernig eða hversu mikið er fjallað um hinsegin þemu í nýlegum verkum svo um það er erfitt að fullyrða.

Tilfinning mín er sú að á síðustu árum, jafnvel bara síðan 2010, hafi orðið talsverð fjölgun í hópi hinsegin persóna í íslenskum skáldverkum og að sama skapi hafi umfjöllun um hinsegin líf og veruleika aukist mjög. Þá á ég ekki endilega við að hér sé um að ræða sögur þar sem aðalpersónan er hinsegin – þær bækur eru enn frekar fáar – heldur verk þar sem samkynja ástarsambönd eða hinsegin persónur eru hluti af aukapersónugalleríinu í bakgrunninum. Eins hef ég á tilfinningunni að á sama tíma hafi hinsegin tilvera orðið frekar viðfangsefni ljóða en sagnaskáldskapar. En þessi tilfinning fæst ekki staðfest nema eitthvað sé gert í málunum. Sum sé, kona þarf að lesa og það markvisst og dálítið skipulega.

Nú er Kynvillta bókmenntahornið sem sagt vaknað og er að sötra annan kaffibollann, tilbúið að takast á við tilraunaverkefni á næstu vikum og mánuðum. Verkefnið er eftirfarandi: Að fjalla um, í stuttu eða löngu máli, eins mörg verk og hægt er sem gefin eru út árið 2016 og fjalla um það sem kalla má hinsegin þemu: samkynja ástir, hómóerótík, kynusla og fleira.

Ég geri mér engar vonir um að ná að lesa allar bækur ársins og því þarf ég hjálp frá ykkur, lesendur kærir. Ég hvet ykkur hér með – nei, grátbið ykkur um að lesa sem mest, hafa augun opin fyrir hómóerótík og kynusla hvers konar í verkunum, hvort sem það eru skáldsögur, smásögur, ljóð eða hvað annað, og leyfa mér að heyra af því sem þið finnið. Í laun fáið þið faðmlag og eilíft þakklæti, svo ekki sé minnst á unaðinn sem fylgir góðum usla.

Auglýsingar

Ein athugasemd á “Kynvillta bókmenntahornið rumskar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s