Mánaðarskipt greinasafn: Okt Á

Kynvillta bókmenntahornið: Varúð – flámælt lesbía!

Texti dagsins er blátt áfram og óheflaður, fullur af gremju og vanlíðan, niðurlægingu og nikótínþörf. Sögukonan er (líklega) einstæð móðir, sögusviðið er Reykjavík á 7. áratugnum, aðfaranótt mánudags, og sagan er texti dagsins af því að í þessum heimi býr lesbía – sjaldséður hvítur hrafn í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Höfundurinn er Ásta Sigurðardóttir, eins og glöggum lesendum hefur kannski dottið í hug strax við lestur þessara inngangsorða, en sagan er þó ekki „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ heldur „Eldspýtur“, sem birtist fyrst í Vikunni í ágúst 1967 og síðar í Sögur og ljóð (1985).

Lesbían í „Eldspýtum“ er í litlu aukahlutverki, sem er þó kannski veigameira en virðist við fyrstu sýn, og kemur ekki við sögu fyrr en í sögulok. Aðalpersónan, sem segir söguna, er kona sem þráir ekkert heitar en að kveikja sér í sígarettu en á engar nothæfar eldspýtur. Þar sem það er búið að loka öllum sjoppum, og það hefur ekki borið árangur að nota brauðristina eða eldavélarhelluna, heldur hún út á dimmar götur Reykjavíkur í leit að góðhjartaðri sál sem geti gefið eða lánað henni eld. Og hún er tilbúin að leggja býsna margt í sölurnar.

Screenshot 2015-10-22 12.13.41

Þá tekur við frásögn af bílunum sem hún stöðvar. Þeir eru af ólíkum gerðum og litum en ökumenn þeirra eru allir karlmenn sem ýmist gefa í þegar þeir sjá konuna eða hreyta í hana ónotum. Þar sem sagan er sögð af konunni sjálfri vitum við lesendur ekki hvernig hún lítur út eða ber sig (eða í hvers konar andlegu eða líkamlegu ástandi hún er) en viðbrögðin sem hún vekur hjá þessum mönnum benda til að þeir dragi ákveðnar ályktanir um hana út frá útliti, það er að hún sé róni, mella, veik á geði eða í það minnsta manngerð sem verðskuldar ekki góðvild:

Screenshot 2015-10-22 12.18.58

Nóttin líður, konan er þreytt og sár yfir framkomu mannanna og ennþá þjáist hún af sígarettulöngun og vonleysi – og lesandinn með henni. Henni er líka skítkalt. Þá rennur enn einn bíllinn upp að henni. Ökumaður hans er að mörgu leyti frábrugðinn hinum, því í fyrsta lagi er hann kona og í öðru lagi stoppar hún og bregst betur við (fyrst í stað) en karlarnir:

Screenshot 2015-10-22 12.27.13

Gjörið svo vel, hér er lesbían mætt á svæðið, fögur en flámælt og hljóðvillt. Og að sjálfsögðu er flámæltri konu ekki treystandi. Hún er falleg, það sér sögukonan, en hún er líka dópuð, æst og áfjáð og gengur hreint til verks: „Veltu ekki koma heim með mér?“ spyr hún (já, einmitt, hún er flámælt); „komdu með mér heim – gerðu það“. Þegar sögukonan færist undan ummyndast daman bókstaflega af bræði:

Screenshot 2015-10-22 12.34.19 Screenshot 2015-10-22 12.34.30

Sögunni lýkur á því að sögukonan gefst upp og gengur heim með sársaukatár í augum, eldlaus og miður sín. Samúð sögunnar er með henni, það fer ekki á milli mála – hún er niðurlægð af karllægu smáborgaraveldi sem ríkir á götum Reykjavíkur þessa nótt (og aðrar) og það er undirstrikað að hún eigi heima úti á jaðri samfélagsins.

En skoðum lesbíuna aðeins nánar; það er jú vegna hennar sem þessi pistill er skrifaður. Hún er flámælt, hljóðvillt, árásargjörn, dópuð, klámfengin, bitur og reið og birtist sögukonunni sem eins konar norn. Hún er þar að auki síðasti hlekkurinn í langri röð persóna sem niðurlægja sögukonuna og allar þessar persónur, nema lesbían, eru karlar. Það má því segja að lesbían birtist í þessari sögu annars vegar sem hálfgert skrýmsli eða norn og hins vegar sem hluti af karlaveldinu sem kúgar og niðurlægir þá sem minna mega sín, því þótt hún sé kvenleg í útliti og fögur er hún hættuleg og tekur sér vald, beitir ofbeldi og er kynferðislega krefjandi og aggressíf. Það er sannarlega lítil sögusamúð með henni og kynhneigð hennar; biturleiki hennar og reiði út í gagnkynhneigðar konur sem skilja „ekke sanna ást“ og „velj[a] allar það sama – eitthvað langleitt með hnúð á endanum“ er ekki sympatísk heldur ógeðfelld.

Það að lesbíur birtist í bókmenntum og listum í gervi vera sem eru í senn kynferðislegar og ógnvekjandi er ekki nýtt og alls ekki einangrað við þessa sögu. Fræðikonan Lillian Faderman, sem rannsakað hefur ástir kvenna í vestrænum bókmenntum, hefur til dæmis bent á að fram að fyrri heimsstyrjöld hafi náin sambönd kvenna oft birst á nokkuð fordómalausan hátt en frá og með 3. áratugnum hafi viðhorf til lesbískra ásta sýnilega orðið fordómafyllri og það sjáist einnig í bókmenntunum, þar sem hinsegin konur birtust gjarnan sem sjúkar verur eða skrýmsli og þá oft sem vampírur eða eins konar mannætur:

„These two images – the lesbian as a medical anomaly and the lesbian as a carnivorous flower – dominated openly lesbian literature, particularly fiction, until the 1970’s“ („What is lesbian literature?“ í Professions of Desire (1995), bls. 50)

Líta má á þessar hættulegu og sjúku lesbíur sem birtingarmynd hómófóbíu, það er hræðslu við það sem ekki samræmist gagnkynhneigðum normum og ögrar hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku og kvenleika.

Dæmi um þetta má einnig sjá í íslenskum skáldverkum eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á í stórgóðri grein, „Hinsegin raddir. Sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum,“ sem birtist í Skírni haustið 2003. „Það voru gagnkynhneigðir íslenskir karlmenn sem tóku það að sér að skrifa um veruleika íslenskra lesbía,“ bendir Dagný á, og vísar þar helst til Guðlaugs Arasonar og skáldsögunnar Eldhúsmellur (1978) og Feilnótu í fimmtu synfóníunni (1975) eftir Jökul Jakobsson. Í þeirri síðarnefndu er lesbísk hliðarsaga en bókin fjallar um Önnu Dóru sem er að brjótast út úr vonlausu hjónabandi og hrífst meðal annars af Söndru, ungri hippastúlku. Aldrei verður þó úr sambandi þeirra á milli og bókin er því ekki lesbísk ástarsaga; þráin í sögunni er gagnkynhneigð, segir Dagný, og í henni birtist jafnframt ógeð á konum sem fara út fyrir kvenleikarammann. Sagan inniheldur nefnilega aðra lesbíu, karlmannlega butch týpu sem bæði konur (nema Sandra) og karlar hræðast eða fyrirlíta. Nafn konunnar segir í raun allt sem segja þarf: Volga Fress. Hún er dimmrödduð, situr gleitt, dulbýr sig sem karlmann, tilheyrir undirheimunum og sögukonunni býður við henni – og því á hún ýmislegt sameiginlegt með lesbíunni í „Eldspýtum“.

Gildran (2015) eftir Lilju Sigurðardóttur er ný bók með lesbíska aðalpersónu – sú fyrsta í þríleik meira að segja!

Grein Dagnýjar er gott og fróðlegt yfirlit yfir lesbíur og birtingarmyndir þeirra í íslenskum skáldverkum fram að síðustu aldamótum. Það er ekki tæmandi, enda var því örugglega ekki ætlað að vera það, og það væri vel þess virði að gera aðra ítarlega rannsókn á þessu efni og reyna að þefa uppi fleiri verk. Eins er verðugt viðfangsefni að skoða ástir kvenna í 21. aldar verkum en ég held að það megi fullyrða að birtingarmyndir lesbía hafa breyst frá því fyrir aldamót með breyttum samfélagsviðhorfum og aukinni umræðu um hinsegin málefni. Svo ekki sé talað um hve mikið þeim hefur fjölgað! Mér finnst næstum eins og það sé hinsegin kona í annarri hverri bók sem ég fletti þessa dagana.

Ég auglýsi hér með eftir rannsókn á ástum kvenna í samtímabókmenntum okkar. Býður sig einhver fram?

Auglýsingar

Kynvillta bókmenntahornið: Að búa eða búa ekki til homma

Fyrir nokkrum árum síðan var ég stödd á háskólaviðburði í Reykjavík og hitti mann sem spurði mig út í doktorsverkefnið, eins og gengur. Ég nefndi íslenskan miðaldatexta (sem varð þó á endanum ekki hluti af minni rannsókn) og að ég væri að skoða tvær karlpersónur og náið samband þeirra. Viðbrögðin sem ég fékk voru:

„Nú já, ætlarðu að fara að gera þá að hommum?“

Þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá stöðu sem bókmenntarýnar sem skoða samkynja ástir og þrár í bókmenntaverkum eru oft í, það er að þurfa að velta fyrir sér hvort þeir eigi á hættu að verða gagnrýndir fyrir að oftúlka eða lesa „of mikið“ í verkin og í framhaldi af því hvort þeir séu jafnvel að móðga höfundinn eða minningu hans með því að bendla hann við samkynhneigð. Hér finnst mörgum mikilvægt að stíga varlega til jarðar en ég er á þeirri skoðun að það sé – eða ætti í það minnsta að vera – algjör óþarfi. Og ég skal segja ykkur af hverju.

Vinaást

Tökum sem dæmi ljóð eftir eitt virtasta skáld þjóðarinnar, Stephan G. Stephansson, sem Stephanssérfræðingurinn og öðlingurinn Viðar Hreinsson benti mér á. Ljóðið heitir „Frá æskudögunum“ og er ort árið 1882 þegar Stephan var 29 ára gamall og fluttur vestur um haf. Þar ávarpar ljóðmælandi æskuvin sinn sem hann hefur ekki séð lengi en saknar mjög. Hann fer fögrum orðum um vininn, traust hans og hreina sál og þær sterku tilfinningar sem hann ber í brjósti. „Langt er síðan nú við fundumst fyrst. / – Fyrri þú mér réttir vinarhendi, / svo er okkar ástasaga styzt, / elska þig sem bróður mér það kenndi, –“ segir hann og heldur áfram:

Screenshot 2015-10-09 09.12.58

(Andvökur, IV. bindi, 1958, bls. 148–152)

Stöldrum aðeins við hér og spyrjum nokkurra spurninga.


1) Eru ljóðmælandinn og vinur hans hommar?

Nei, það er hægt að fullyrða að þeir séu ekki hommar ef við göngum út frá því að samkynhneigð sé hugmynd og/eða orðræða sem er samfélags- og menningarlega mótuð frekar en eðlisþáttur mannsins sem hefur alltaf verið til. Þegar um er að ræða hugtök eins og samkynhneigð í sögulegu samhengi takast með öðrum orðum á, eins og svo oft, mótunarhyggja og eðlishyggja og um þetta er fólk alls ekki sammála. Mótunarhyggjan hefur þó undanfarið yfirleitt orðið ofan á, held ég að megi segja, meðal þeirra sem vinna á sviði hinsegin fræða og rannsókna og ég fylgi henni, sér í lagi kenningu Foucaults um að samkynhneigði einstaklingurinn hafi „fæðst“ eða orðið til í vestrænni orðræðu undir lok 19. aldar.

Ég skal reyna að orða þetta á mannamáli: Foucault og þeir sem honum fylgja líta svo á
að þótt fólk hafi stundað kynlíf með aðilum af sama kyni frá alda öðli varð hugmyndin um samkynhneigða einstaklinginn sem sérstaka „tegund“ af manneskju – sem sefur ekki bara hjá heldur hefur ákveðin persónueinkenni og sjálfsmynd og skilgreinir sig eða er skilgreind á ákveðinn hátt – ekki til fyrr en seint á 19. öld og hún breiddist mishratt út. Á Íslandi var hún ekki komin inn í hugarheim almennings fyrr en á 3. áratug 20. aldar í fyrsta lagi – líklega síðar. Þess vegna er mjög vafasamt að nota orð eins og samkynhneigð, hommi og lesbía um fólk og persónur fyrir þennan tíma, þar sem í því felst að þröngva hugmyndum og hugsunarhætti síðari hluta 20. aldar upp á fortíðina og það býður upp á misskilning og mistúlkun.

2) En þeir kyssast og faðmast og ljóðmælandinn segist elska vin sinn. Sýnir það ekki að þeir séu elskhugar?

Nei, ekki endilega. Kannski.

Við lifum í vestrænum heimi 21. aldar þar sem fólk er oftast flokkað sem gagnkynhneigt og samkynhneigt* þar sem hið fyrrnefnda er normið og hið síðarnefnda er í besta falli pínulítið öðruvísi og í versta falli óæskilegt, hættulegt eða ógeðslegt. Hómófóbía er hræðsla við samkynhneigð og hún felur í sér sterka þörf til að draga skýrar línur milli þess gagnkynhneigða og þess samkynhneigða, vegna þess að ef línurnar eru skýrar er minni hætta á að lenda „vitlausu megin“ og auðveldara að halda þeim samkynhneigðu í öruggri fjarlægð. Þessar línur snúast mikið til um að skilgreina hvað sé kynferðislegt og hvað ekki. Þess vegna gilda víða ákveðnar óskráðar reglur í samskiptum fólks af sama kyni. Mörgum karlmönnum finnst til dæmis óþægilegt eða rangt að kyssa vini sína, faðma þá alúðlega eða tjá þeim tilfinningar sínar – af því að þá eru þeir komnir hættulega nálægt línunni sem ekki má fara yfir án þess að vera talinn samkynhneigður.

Aftur á móti er hómófóbía ekki til (eða mun áhrifaminni) í heimi þar sem tvískiptingin í gagn- og samkynhneigð er ekki ríkjandi (eða jafnvel ekki til) og þar af leiðandi eru reglurnar um ásættanlega hegðun öðruvísi. Ef þú veist ekki að þú stendur á bjargbrún ertu ekki hrædd við að detta fram af, er það? Og þá er engin ástæða til að hegða sér á ákveðinn hátt til að forðast að detta. Að sama skapi má álykta að ljóðmælandinn í ljóði Stephans G. árið 1882 hafi ekki þurft að óttast að segja frá ást sinni eða kossum því það var lítil hætta á að hann yrði fordæmdur fyrir það. Það eru til mýmörg dæmi um ljósmyndir frá þessum tíma þar sem karlmenn stilla sér upp í mjög innilegum stellingum og þessar myndir benda til þess að reglurnar eða mörkin í samskiptum vina af sama kyni hafi verið aðrar en í dag.** Þá má færa rök fyrir því að það hafi ekki verið þörf á því að draga skýra línu á milli þess kynferðislega og þess ókynferðislega – milli elskhuga og „bara vina“ – því önnur hliðin á þessum peningi var ekki til í hugum fólks.

(Þessi mynd er úr bók eftir John Ibson, Picturing Men: A Century of Male Relationshipsin Everyday American Photography, 2006)

Það er sérlega áhugavert við lokalínurnar í erindinu sem ég vitnaði í hér að ofan að ljóðmælandinn tekur fram að kyn vinarins skipti máli hvað varðar hvernig hegðun þeirra er túlkuð. Hann segir sem sagt að ef vinurinn hefði verið kona hefðu kossar þeirra og faðmlög verið túlkuð sem ósiðlegt athæfi eða í það minnsta verið tilefni til slúðurs. Þetta styður að mínu mati þá kenningu að hugmyndin um tvo karla sem elskhuga hafi ekki verið möguleg í hugarheimi ljóðmælandans og þess vegna var ekki ástæða til að óttast hana.

Screenshot 2015-10-09 09.18.23Ekkert af ofangreindu útilokar hins vegar að ljóðmælandinn og vinurinn hafi verið elskhugar. Það er allt undir túlkun lesandans komið.

3) Er ég að oftúlka ljóðið ef ég segi að það fjalli um samkynja ást eða þrá?

Nei, ekki að mínu mati. Þótt ekki sé viðeigandi að tala um homma fyrr á öldum og við komumst að þeirri niðurstöðu að ljóðmælandinn og vinurinn hafi líklega verið „bara vinir“ og ekki elskhugar má samt sem áður vel tala um samkynja ást í þessu samhengi. Því það er það sem þetta er, ekki satt? Tveir karlar sem elska hvor annan.

Hugtakið samkynja félagsþrá*** (e. homosocial desire) sem Eve Kosofsky Sedgwick þróaði og setti fram í bókinni Between Men er hjálplegt í þessu samhengi. Hún lagði til að öll sambönd og tengsl aðila af sama kyni væru hugsuð út frá skala frekar en flokkum. Á öðrum enda skalans eru þá kynferðisleg tengsl (homosexual) og á hinum tengsl sem eru félagsleg en ekki kynferðisleg (homosocial). Öll þessi tengsl falla undir samkynja félagsþrá eða þrá fólks eftir samskiptum og samböndum við aðila af sama kyni. Ef unnið er út frá þessum hugmyndum er hægt að tala almennt um sambönd aðila af sama kyni án þess að skilgreina hvort þau séu kynferðisleg eða ekki. Það er nefnilega oftar en ekki sambandið sjálft sem er áhugavert en ekki hvort það er „bara vinátta“ eða „eitthvað meira“. Skiptir það til dæmis einhverju máli varðandi upplifun og túlkun lesandans á ljóði Stephans? Skiptir máli hvort þeir kysstust á munninn eða kinnina? Með tungu eða ekki? Hvort þeir struku hvor öðrum um vangann eða hvort þeir höfðu samfarir? Er ekki mun áhugaverðara að einblína á tilfinningarnar, söknuðinn, ástina, sektarkenndina, nándina, fjarlægðina?

Ég kýs að nota hugtakið eða orðalagið „samkynja ástir og þrár“ í svipuðum skilningi og Sedgwick talar um samkynja félagsþrá og ég geri ekki þá kröfu að þessar ástir og þrár séu kynferðislegar. Stundum er kynlífið hluti af rannsóknarefninu og stundum ekki en það á ekki að þurfa að vera atriðið sem sker úr um það hvort ákveðinn bókmenntatexti er valinn sem viðfangsefni eða ekki.

4) Ef ljóðið fjallar um samkynja ást, var Stephan G. þá hommi eða fyrir karlmenn?

Það ætti að vera óþarfi að svara þessari spurningu en þetta er engu að síður algeng hugsun. Svo höfum eitt á hreinu: það er engin bein eða sjálfgefin tenging milli umfjöllunarefnis ljóðs og skáldsins sjálfs. Það að ljóð fjalli um samkynja ástir gefur okkur ekki ástæðu til að draga ályktun um kynhneigð höfundarins. Það getur vakið upp hugsanir og vangaveltur, vissulega, og oft er tenging þarna á milli en ljóð eru ekki ævisögur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Stephan G. hafi verið fyrir karlmenn en það getur vel verið – það kemur bara málinu lítið sem ekkert við.

Lokaorð

Í fyrsta lagi: Bókmenntarýnar sem skoða hinsegin bókmenntir eru ekki að fara gera neina að hommum, því það er ekki á okkar færi (sem betur fer). Í öðru lagi: Hræðslan við að fjalla um samkynja ástir og þrár í bókmenntum og „oftúlka“ þær er að mínu viti sprottin af sama meiði og hómófóbía – gott ef hún er ekki bara ein tegund af hómófóbíu. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að stíga varlega til jarðar þegar fjallað er um samkynja ástir og þrár í bókmenntum af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert að hræðast.

– – –

*Þetta er reyndar að breytast og hinsegin aktívismi er farinn að hafa þau áhrif að fólk er í auknum mæli flokkað í marga flokka en ekki bara tvo, þ.e. sú hugmynd að það séu ekki bara til tvær kynhneigðir heldur margar og að fólk eigi að fá að skilgreina sig sjálft er orðin útbreiddari en áður.

**Ég hef heyrt af mjög áhugaverðri lokaritgerð um kossa karlmanna á Íslandi í kringum 1900 sem verður unnin upp í grein von bráðar. Fylgist með.

***Þessi þýðing er til bráðabirgða en ekki fullmótuð. Aðrar tillögur eru vel þegnar.

Meðal þess lesefnis sem byggt er beint og óbeint á þessum pistli:

Foucault, Michel. The Will to Knowledge. La Volonté de savoir, 1976. Þýð. Hurley, Robert. The History of Sexuality. Vol. 1. London: Penguin, 1978.

Halperin, David M. One Hundred Years of Homosexuality and Other Essays on Greek Love. New York: Routledge, 1990.

Sedgwick, Eve Kosofsky. Between Men: English Literature and Male Homosocial Desire. New York: Columbia University Press, 1985.