Nýr dagskrárliður: Kynvillta bókmenntahornið

Jæja, enn á ný hefur liðið tæpt ár á milli skrifa á þessari síðu og það er líklega komin hefð fyrir því að hún vakni úr dái á haustin. Í þetta skiptið er þögnin rofin með fyrirheiti um vikulegar uppfærslur og nýjan dagskrárlið: kynvillta bókmenntahornið!

Í kynvillta bókmenntahorninu verða birtar stuttar umfjallanir um íslenska bókmenntatexta frá öllum tímum sem fjalla um hinsegin tilveru af einhverju tagi. Þessar kynningar verða ekki fræðilegar og þeim er ekki ætlað að vera heimild heldur miklu fremur ábending til lesenda, bókmenntafræðinga og annarra sem eru áhugasöm um bækur og hinsegin sögu og menningu. Margir þessara kynvilltu texta eru lítið þekktir og fáir hafa verið ræddir sem hinsegin textar eða út frá hinsegin fræðum eða sögu. Margt (næstum allt, með mikilvægum undantekningum þó) er enn óskrifað hvað varðar samkynja ástir og önnur hinsegin viðfangsefni í íslenskum bókmenntum og bókmenntasögu. Það þýðir alls ekki að engir textar séu til – þvert á móti – þetta svið er einfaldlega að miklu leyti óplægður akur sem býður upp á marga spennandi möguleika fyrir rannsakendur framtíðarinnar. Kynvillta bókmenntahorninu er í og með ætlað að aðstoða þá við að finna sér viðfangsefni.

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra í örstuttu máli nokkur lykilhugtök og orð sem ég nota í þessu samhengi. Þegar ég tala um hinsegin bókmenntir á ég við mjög vítt svið bókmenntatexta sem fjalla á einhvern hátt um hinsegin tilveru eða reynslu – það er tilveru eða reynslu sem ekki fellur að gagnkynhneigðum sískynjuðum samfélagsnormum. Undir það falla ástir og ástarsambönd aðila af sama kyni en einnig frásagnir af trans og intersex persónum og ýmsu öðru.

Kynvilltur og kynvilla eru orð sem voru notuð í áratugi um það sem við köllum í dag samkynhneigð og samkynhneigt fólk.* Þessi orð voru yfirleitt þrungin neikvæðri og gildishlaðinni merkingu, enda notuð á tímum þegar fordómar í garð þessa þjóðfélagshóps voru miklir. Orðin lifðu ágætu lífi fram undir 1990 en eru nú yfirleitt talin álíka viðeigandi og „negri“ eða „júði“ – sem sagt óviðeigandi. Á því eru þó undantekningar og á undanförnum árum hafa þau öðru hverju heyrst og sést notuð af hinsegin einstaklingum og þá í jákvæðri merkingu, líklega oft í gríni eða léttum dúr. Það er löng hefð fyrir því að minnihlutahópar taki niðrandi orð sem hafa verið notuð í þeirra garð og snúi þeim upp í andhverfu sína – orðið hinsegin og enska orðið queer eru lýsandi dæmi um það. Ég nota orðið kynvilltur hér í og með í slíkri jákvæðri merkingu – sem glaðlegan uppásnúning og orðaleik (hver er ekki kyn-villtur þegar upp er staðið?). Þó kýs ég ekki síður að nota þetta orð af því að þegar um er að ræða bókmenntatexta frá fyrri hluta 20. aldar og fram yfir miðja öld er það einfaldlega mun meira viðeigandi heldur en orðið samkynhneigð þar sem kynvilla var hugtakið sem notað var á þeim tíma (og kynvilla og samkynhneigð merkja ekki alltaf nákvæmlega það sama – en um það get ég skrifað annan pistil). Kynvilltar bókmenntir eru með öðrum orðum hér í þessu bókmenntahorni bókmenntatextar sem fjalla um samkynja ástir og þrár og ýmiss konar kynusla fyrr og nú.

Til að flækja málin enn frekar fer það hvað telst vera hinsegin eða kynvillt algjörlega eftir því um hvaða tíma við erum að tala og hvaða viðmið við notum hverju sinni. Eru kynmök tveggja karla á þjóðveldisöld til dæmis hinsegin? Eða kynvillt? Samkynhneigð? Samkvæmt samfélagsviðmiðum 10. aldar eða 21. aldar? Hvað með frásagnir af náinni vináttu (þar með talið kossum, faðmlögum og ástarjátningum) tveggja karla eða tveggja kvenna á 19. öld, áður en fyrirbærið samkynhneigð var þekkt á Íslandi? Þessu verður ekki svarað í stuttu máli og ég ætla að geyma umræðuna þar til síðar.

Sumir textarnir sem fjallað verður um í kynvillta bókmenntahorninu eru vel kunnir en margir eru lítt þekktir, eins og ég nefndi hér að ofan, og ástæðan fyrir því að ég veit um þá síðarnefndu er fyrst og fremst sú að ég auglýsti eftir þeim fyrir fjórum árum síðan þegar ég var byrjuð að vinna að doktorsrannsókninni. Viðbrögðin við þessari auglýsingu voru mjög ánægjuleg. Fólk úr ýmsum áttum setti sig í samband við mig og benti mér á hitt og þetta og ég kann öllum sem veittu mér ábendingar bestu þakkir fyrir. Nú er komið að því að deila þeim með fleirum.

* Reyndar voru orðin kynvilla og kynvilltur í upphafi 20. aldar notuð á margvíslegan hátt og um ýmis fyrirbæri sem voru bókstaflega kyn-villt, til dæmis orð sem voru notuð í „vitlausu“ málfræðilegu kyni eða þegar „kvennöfn“ voru notuð af körlum og öfugt. Dæmi um þetta má t.d. sjá í dagblöðum (sjá Timarit.is).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s