Hvað er hinsegin? Fyrri hluti

hinseginhinseginÁ undanförnum árum hefur hugtakið hinsegin orðið æ algengara í íslenskri samfélagsumræðu samhliða aukinni umræðu almennt um málefni samkynhneigðra, tví- og pankynhneigðra, transfólks, intersex fólks og annarra sem ekki falla að normum er varða kyn, kyngervi og kynverund. Á sama tíma og hinsegin hefur fest í sessi hefur hugtakið þó einnig verið gagnrýnt og ljóst er að merking þess er ekki sú sama í hugum allra.

Sú samantekt sem fylgir hér á eftir og í síðari hluta þessa pistils er tilraun til að skilja q logohugtakið hinsegin, uppruna þess, merkingu og notkun á síðustu áratugum. Markmiðið er ekki að komast að niðurstöðu um hver sé „rétt“ merking þess eða hvernig það „eigi“ að vera notað, heldur að velta upp ýmsum hliðum með þá von í brjósti að lesendur verði meðvitaðri um hugtakið og þá merkingu sem hvert og eitt okkar leggur í það.

Þessi pistill er að miklu leyti greining á orðræðu í fjölmiðlum sem er byggð á orðaleit á Hinsegin þema á bókasafni Seltjarnarnessvefnum Timarit.is. Slík rannsókn gefur ekki endilega fullkomna mynd af opinberri orðræðu þar sem ekki eru öll íslensk dagblöð og tímarit komin inn á Timarit.is og þar að auki er ekki víst að orðaleitin sé 100% skilvirk. Þessi samantekt er heldur ekki rannsókn á hinsegin samfélagi eða orðanotkun innan raða samtaka hinsegin fólks á Íslandi. Allir sem starfað hafa með slíkum samtökum vita að umræða í fjölmiðlum endurspeglar alls ekki alltaf þá umræðu sem fer fram í raun og veru eða þá stefnu sem félögin hafa mótað sér, því fjölmiðlar eru oftar en ekki mótaðir af gagnkynhneigðri hugsun og viðmiðum. Þess vegna getur verið að sú mynd sem hér er dregin upp af notkun orðsins hinsegin stingi í stúf við þann veruleika sem hinsegin fólk þekkir og ég biðst fyrirfram afsökunar á því. Til að öðlast dýpri skilning á því hvernig hinsegin samfélagið sjálft hefur notað hugtakið og hvaða afstöðu það hefur til þess þarf að gera allt annars konar og vandaðri rannsókn – og það er verðugt verkefni fyrir félagsvísindafólk.hin logo

Notkun og saga orðsins hinsegin á margt sameiginlegt með enska orðinu queer og pistill sem ég skrifaði í fyrra um queer  er því nokkurs konar formáli að því sem hér birtist.

Hvað segir orðabókin?

Samkvæmt Íslenskri orðabók þýðir orðið hinsegin ,öðruvísi‘ eða ,skrýtinn, undarlegur‘, ‘óviðeigandi, ótækur‘.  Ef leitað er að orðinu á vefnum Tímarit.is koma upp fjölmörg dæmi um slíka notkun á síðustu öld, það er að segja setningar á borð við „hann/hún er nú eitthvað hinsegin“ í merkingunni að viðkomandi sé ,skrýtin/n‘, ,óviðeigandi‘ eða hafi ,orðið sér til skammar‘. Orðið getur einnig verið atviksorð og er þá notað í setningum eins og „hann/hún sagði það svona hinsegin“ til að gefa til kynna að viðkomandi hafi sagt eitthvað óhugsað eða án þess að fara ofan í saumana á því. Þrátt fyrir að hið síðastnefnda sé ekki beinlínis niðrandi er ljóst að orðið hinsegin hefur í ofangreindu samhengi nær alltaf neikvætt merkingargildi.

Áhugavert er að í Íslenskri orðabók kemur einnig fram að hinsegin merki ,þunguð, ófrísk‘. Um það eru einnig nokkur dæmi á Tímarit.is, til dæmis í þýðingu Kristjáns Eldjárn á smásögunni „Jómfrúfæðingin“ eftir William Heinesen (Andvari 3. tbl. 1960):

Screen Shot 2013-11-07 at 15.36.10

Hin sautján ára gamla María í sögu Heinesens varð ófrísk utan hjónabands. Þótt það komi ekki fram í orðabókinni er nokkuð ljóst að í textadæmunum sem koma fram á Tímarit.is felur það að vera hinsegin ekki bara í sér að kona sé barnshafandi, heldur að barnið hafi komið undir í lausaleik, sem var litið alvarlegum augum.  Hinsegin virðist sem sagt einnig hafa neikvæða merkingu þegar um þungaða konu er að ræða.

Hinsegin kynverundkynvillingar lysa lifi sinu

Síðasta merking orðsins hinsegin sem Íslensk orðabók gefur upp er ,samkynhneigður‘. Dæmi um slíka notkun er að finna á Tímarit.is frá upphafi sjöunda áratugarins, svo sem í umfjöllun Alþýðublaðsins um leikritið „Heilög skúta kvenleikans“ í febrúar 1961 og í þýddri sögu eftir Maurice Zolotov í Morgunblaðinu 21. október sama ár. Í Fálkanum var enn fremur birt lausleg þýðing á umfjöllun þýsks vikublaðs í apríl 1966 undir fyrirsögninni „Kynvillingar lýsa lífi sínu“. Þar spyr þýskur blaðamaður einn viðmælenda sinna spurningar sem þýdd er virðulega á þennan hátt: „Hver teljið þér að sé frumorsök þess, að þér eruð „hinsegin“?“

Um 1970 virðist orðið í þessari merkingu vera komið í nokkuð almenna notkun í íslenskum fjölmiðlum. Yfirleitt er það notað um samkynhneigða karla frekar en konur en það má skýra með þeirri staðreynd að almennt var talað meira og opinskár um samkynhneigð karla en kvenna á þessum árum. Vart þarf að fjölyrða um að orð eins og hinsegin og kynvillingur voru hlaðin neikvæðri merkingu á sjöunda og áttunda áratugnum og oft notuð í neikvæðum og fordæmandi tilgangi. Þó ber einnig að nefna að margir samkynhneigðir notuðu hinsegin líka sín á milli á þessum tíma og tóku orðið þannig upp á sína arma og notuðu á jákvæðan (eða í það minnsta jákvæðari) hátt um sjálfa sig og aðra.

Hinsegin sögur

hinsegin_sogurEitt athyglisverðasta dæmið um notkun samkynhneigðra einstaklinga á orðinu hinsegin er smásagnasafnið Hinsegin sögur eftir Guðberg Bergsson, sem kom út árið 1984. Þessar sögur stuðuðu marga lesendur en í þeim fjallar Guðbergur um ýmis svið kynferðislífsins á opinskáan og óvenjulegan hátt. Ein sagan fjallar til dæmis um tvo menn sem eru tvítóla og með kynfærin á bringunni og nágrannarnir halda af þeim sökum að þeir séu í hanaslag þegar þeir stunda kynlíf. Aðrar sögur í bókinni fjalla til dæmis um Magnúsu sem fer að vaxa typpi, tvíkynhneigðan fíl sem fullnægir fólki með rananum og Öbbu litlu sem lætur (já, hún er gerandi í sögunni) bæði afa sinn og hundana á leikvellinum „stinga í kitlustaðinn“ sinn. Flestar eiga aðalpersónur smásagnanna það sameiginlegt að fá ánægju út úr kynlífinu og þær skammast sín ekki fyrir það. Því má segja að Hinsegin sögur séu óður til ó-gagnkynhneigðs og ó-venjulegs kynferðislífs, hvað sem lesendum kann að finnast um að kynlíf tveggja karla og kynferðisleg hegðun barns sé sett undir sama hatt.

Sögur Guðbergs eru hinsegin í miklu víðari skilningi en samkynhneigðum og segja má að notkun orðsins hinsegin í þessu samhengi feli í sér allar orðabókarmerkingarnar sem greint hefur verið frá hér að ofan, nema óléttu, því sögurnar eru margar sannarlega skrýtnar, undarlegar, ótækar og óviðeigandi.  Þorvaldur Kristinsson, sem kom að útgáfu bókarinnar, útskýrði þema bókarinnar á þennan hátt í viðtali í Helgarpóstinum í febrúar 1985:

„Að vera hinsegin, öðruvísi, utangarðs er eins konar samnefnari þessara sagna, held ég. Sumar persónurnar njóta þess að eflast við hvern hanaslaginn sem lífsnautnin færir þeim. Aðrar standa ekki undir því að vera hinsegin, leysast upp og láta furðufugla gleypa sig með húð og hári. Svo er þarna fólk eins og Anna leikkonar sem stynur undir því að hafa ekki tekist að verða nógu hinsegin í list sinni. Hún hefur aldrei ratað á ögrunina, heldur látið stofnunina éta sig með húð og hári og sætt sig við ríkjandi heimsmynd í listsköpun sinni.“

Screen Shot 2013-11-07 at 17.04.31

Hér er hinsegin því notað í merkingunni ,utangarðs‘ og ,ögrandi‘ – eða ,það sem ögrar ríkjandi samfélagsviðmiðum‘ – og það er ekki endilega bundið við kynverund þótt tengingin þar á milli sé sterk. Þorvaldur og Guðbergur virðast nota hinsegin í mjög svipaðri merkingu og enska orðið queer sem þó varð ekki útbreitt í sinni róttæku merkingu (,það sem ekki samræmist gagnkynhneigðum viðmiðum‘) í Bandaríkjunum fyrr en nokkrum árum síðar. Hvort þeir félagar höfðu enska orðið í huga skal ósagt látið en líkindin með hinsegin og queer í þessu samhengi eru skýr hvað sem því líður.

Forsíða dagskrárrits Hinsegin daga 2014


Hinsegin á 21. öld

Á árunum í kringum aldamótin 2000 má segja að sprenging hafi orðið í notkun orðsins hinsegin í íslenskum fjölmiðlum og í íslenskri samfélagsumræðu almennt. Sem dæmi má nefna að samkvæmt orðaleit sem framkvæmd var í apríl 2014 kemur orðið 290 sinnum fyrir á Timarit.is frá 1990–1999 en 1147 sinnum frá 2000–2009. Vafalaust liggja margar ástæður þar að baki en tvö atriði skipta meginmáli að mínu mati. Annars vegar var umræða um samkynhneigð og hinsegin málefni orðin hispurslausari og jákvæðari á fyrsta áratug nýrrar aldar en áður. Hins vegar fékk baráttu- og sýnileikahátíð hinsegin fólks, sem hafði áður verið haldin undir öðrum formerkjum, heitið Hinsegin dagar í Reykjavík árið 1999 en hátíðin hlaut strax býsna mikla fjölmiðlaathygli sem hefur aukist æ síðan.

Frá aldamótum hefur notkun orðsins hinsegin þróast hratt og í ýmsar áttir og ljóst er að það er notað á margvíslegan hátt. Í fyrsta lagi er hinsegin enn notað í merkingunni ,öðruvísi‘ og ennþá er talað um að eitthvað sé „svona eða hinsegin“. Í öðru lagi er orðið er notað sem akademískt hugtak (sbr. hinseginfræði) og í þriðja lagi um ákveðna sjálfsvitund (e. identity) sem þjónar lykilhlutverki í pólitískri réttindabaráttu. Um þetta verður fjallað í síðari hluta þessa pistils.

2 athugasemdir á “Hvað er hinsegin? Fyrri hluti

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s